22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (1699)

108. mál, einkasala á tóbaki

Jóhann Jósefsson:

Það er nú sennilegt, að það þýði ekki mikið að hafa á móti þessu stefnumáli hv. flm., því að eins og högum er nú háttað hjer í hv. deild, má búast við, að forlög þessa máls sjeu ráðin fyrirfram. Jeg vil aðeins minna á það, að fyrir atbeina þess flokks, sem jeg fylgi að málum, og frjálslyndra, var einkasala á tóbaki afnumin árið 1925, og þá var því haldið fram, að ríkissjóður tapaði engum á því í tekjum, að verslunin væri gefin frjáls, enda var þá tollur hækkaður. Þá var einnig sýnt fram á það, að heldur hefði dregið úr versluninni með tóbak á þeim tíma, sem einkasalan stóð og varan versnað. Nú hefir það sýnt sig, að þrátt fyrir tollhækkunina hefir smásöluverð tóbaks lækkað, bæði hjer í Reykjavík og út um land, og auk þess hefir betri og fjölbreyttari vara verið á boðstólum. Jeg er því sannfærður um, að það er gert í óþökk mikils hluta þjóðarinnar, ef einkasala er upp tekin. Og hvað sem nú hv. flm. og hans flokksmenn og fylgjendur halda fram um það, að hjer eigi að vera um eina undantekningu að ræða, þá er það víst, og enda sýnilegt af öðrum frv., sem hjer eru komin inn í þingið, að þetta er aðeins einn liður í því, sem þessir menn vilja fá ríkiseinokun eða þjóðnýtingu á. Það er náttúrlega rjett, og það þarf ekki sjerstaka skarpskygni til að sjá það, að einokunarfyrirtæki hefir betri aðstöðu til að græða en fyrirtæki, sem starfar í frjálsri samkeppni. Sína fyrri ræðu endaði hv. flm. með þeirri fullyrðingu, að afnám einkasölunnar hefði verið hagsmunamál kaupmanna, og því hefði Íhaldsflokkurinn beitt sjer fyrir því. Þetta er nú vitanlega alls ekki neitt nærri sanni, en hitt er rjett, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á, að flokkurinn vill ekki að nauðsynjalausu innleiða einokun í nokkurri grein, og það væri algerlega að nauðsynjalausu, ef slíkt væri gert nú. Þegar Alþingi á sínum tíma ákvað að taka einkasölu á steinolíu, var það gert af nauðsyn, sem sje til að forðast áhrif útlendra auðhringa á verslunina og verðlagið hjer. — Jeg sje nú heldur ekki, að því er tóbakið snertir, að hag ríkissjóðs sje á nokkurn hátt betur borgið með því, að ríkið hafi einkasölu á því. — Þegar hv. flm. er að tala um það, að nú sje aðstaðan önnur og ekki ástæða fyrir Íhaldsflokkinn að leggjast á móti einkasölu, þá veit jeg ekki við hvað hann á með því, nema ef það skyldi vera það, að hann er sjálfur stærsti tóbaksheildsalinn á landinu. Já, það er auðvitað ekki nema eðlilegt, að hann ætlist til þess, að menn dáist að sjer fyrir þá dæmalausu óeigingirni, að bera fram slíka till. sem þessa, gegn sínum eigin hag — einkum þegar litið er á það, að það mundi eðlilega fara svo, að hann seldi ríkissjóði allar sínar birgðir í einu lagi! Það er ekki nema eðlilegt, að hann líti smáum augum á þessa „eigingjörnu“ Íhaldsmenn, sem á sínum tíma börðust fyrir því, að fá þessa verslun frjálsa. Hann væri kanske vís til að kaupa tóbakið aftur, af landsverslun, ef breytt væri um fyrirkomulag í framtíðinni! Það er ekki að vita, hvað óeigingirni hv. þm. getur leitt hann langt.