22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

108. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú gripið til þess þrautaúrræðis, er hann altaf grípur til, sem sje að slá því föstu, að ríkisrekstur sje verri en samkeppnisrekstur.

Þegar um menningarfyrirtæki er að ræða, eins og t. d. háskólann, hefir hv. 1. þm. Reykv. ekki hingað til verið á móti ríkisrekstri, eða haldið því fram, að hann sjálfur eða aðrir eigi að fá að „spekúlera“ með háskólakenslu á vísu samkeppnisrekstrar.

Þetta kemur sennilega til af því, að í mentamálunum þekkir hv. 1. þm. Reykv. eitthvað til, en hinsvegar þekkir hann ekkert til um verslunarrekstur yfirleitt.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K. gerðu samanburð milli tekna einkasölunnar og tollsins eftir 1925, eða árin 1926–27. En jeg verð að segja, að ef ætti að sanna á slíkum talnasamanburði, þá ætti ekki einungis að taka til athugunar þau árin, heldur árin á undan einkasölunni. Það þarf að gæta þess, að þegar einkasalan gengur í gildi, hefir verið flutt inn afarmikið af tóbaki árið á undan, og það svo mjög, að þessar birgðir drógu mjög úr innflutningi einkasölunnar tvö fyrstu árin, því að hún flutti ekki meira inn en eftirspurnin krafðist.

Árin 1924–25 er fyrst hægt að tala um venjuleg verslunarár einkasölunnar og bera þau saman við 1926–27, þegar tollurinn var hækkaður. Árið 1926, eftir afnám einkasölunnar, hefst sami gífurlegi innflutningurinn; bæði keypti fjöldi kaupmanna miklar birgðir og fluttu inn í umboðssölu, og liggur mikill hluti þeirra enn óseldur í geymslustöðum kaupmanna eða tollgeymslu. Er þetta ár því ekki venjulegt, frekar en árið 1921, næst á undan einkasölunni. Fyrst árið 1927 kemur því fram sem venjulegt innflutningsár, með samkeppnisverslun, er þetta ár stenst ekki vel samanburð við venjuleg ár einkasölunnar.

Viðvíkjandi útsvörum tóbakseinkasölunnar og þeim útsvörum, er tóbaksinnflytjendur greiða nú, þarf ekki mörgum orðum að eyða, enda er auðvelt að rannsaka í nefnd, hve mikið útsvar tóbakseinkasalan og núverandi tóbaksinnflytjendur gjalda hjer. Er eðlilegt, að hagnaður einkasölunnar sje meiri, þar sem allur verslunarreksturinn er dýrari hjá innflytjendum. Þar sem bæjarsjóður fjekk sjer dæmt útsvar einkasölunnar, 100 þús. kr., verður sú upphæð að teljast hagnaður hins opinbera, auk tekna ríkissjóðs.

Hv. þm. Vestm. gat þess, að smásöluverð á tóbaki hafi lækkað, eftir að einkasalan hætti, bæði hjer og úti um land. Þótt lækkað hafi smásöluverð á einstaka tegundum, þá er það ekki nema eðlilegt, þar sem þannig stóð á, að innkaupsverð á tóbaksvörum lækkaði, um það leyti sem einkasalan hætti, í desember 1925. Ef teknar væru allar vörutegundir, mundi koma í ljós, að álag væri, töluvert meira í smásölu af tóbaki nú, en þegar einkasalan var.

Hann vildi láta líta svo út sem einkasalan hefði betri aðstöðu til þess að græða, en jeg átti auðvitað við, að einkasalan stæði betur að vígi en innflytjendur, vegna þess, að hún hefði ódýrari aðdrætti og innkaupsverð, og því tiltölulega minni tilkostnað. Hann fór ýmsum háðsorðum um, og dáðist að þeirri óeigingirni minni, að vilja láta ríkið fá hagnað af einkasölunni, og sýndi um leið þá mynd af mjer, að jeg mundi selja einkasölunni mínar tóbaksbirgðir.

Jeg vil taka það fram, að jeg er ekki tóbaksinnflytjandi sem slíkur. Jeg er aðeins starfsmaður hjá Tóbaksverslun Íslands, og á lítinn hluta af höfuðstól þess fyrirtækis. Jeg sje ekki, hvaða hagnaður væri fyrir þá verslun, hvað þá heldur fyrir sjálfan mig, að tóbakseinkasalan hætti. Þetta hlutafjelag hefir gefið allsæmilegan arð þessi árin, og mundi því ekki geta annað en mist hagnaðar við að hætta heildverslun og innflutningi. En kæmist einkasalan á, er hún samkvæmt frv. á engan hátt skyld til að kaupa birgðir heildsala, heldur þvert á móti hefir hún aðstöðu til að kaupa þær, ef hún á annað borð óskar þess, langt fyrir neðan innkaupsverð, vegna þess að annars yrði á þær lagður aukaskattur. Sjest af þessu, að hvorki jeg, Tóbaksverslun Íslands, nje aðrar innflutningsverslanir, geta haft hag af afnámi einkasölunnar. En hv. þm. skilur auðvitað ekki, að ýmsir menn, þar á meðal jeg geti miðað fylgi sitt við mál af öðru en eigin hagsmunum.