22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (1708)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Grg. þessa frv. ber það ljóst með sjer, hvað fyrir flutningsmönnum þess hefir vakað.

Það er öllum vitanlegt, að fiskiveiðasjóður er fyrir löngu orðinn ónógur til þess að verða við þeim lánsbeiðnum, er honum berast, og fullnægja lánsþörf bátaútvegsins yfirleitt. Þetta er alment viðurkent, sem sjest t. d. af afskiftum fiskiþingsins í þessu máli. Það er mjög nauðsynlegt fyrir bátaútveginn að aukið sje lánsfje til þess atvinnuvegar. Bátaútvegurinn hefir orðið að heyja harða baráttu fyrir tilveru sinni, engu síður en stórútgerðin, og á miklu erfiðari aðstöðu en hún.

Það var farið vel af stað í fyrstu, með þessa sjóðsstofnun og henni sjeð vel fyrir tekjum, þar sem henni voru ætlaðir 1/3 hluti af sektum togara, 1/3 af afla og veiðarfærum, sem upptæk höfðu verið gerð, og 1/3 af útflutningsgjaldi af síld. Þetta var sjóðnum mikil stoð, en nú hefir sjóðurinn mist allar þessar tekjugreinir. Hefir hann nú ekki aðrar tekjur en styrk ríkissjóðs og vexti af fje sínu. Það er því ekki von, að sjóðurinn geti orkað því hlutverki, er honum er ætlað, og því síður, þegar þess er gætt, að meðferð sjóðsins hefir hvergi nærri verið eins og tilgangurinn mun hafa verið upphaflega. Upphaflega var ætlunin, að nota sjóðinn aðallega til styrktar bátaútveginum, og til þess að hjálpa mönnum til að koma sjer upp bátum. Sjóðurinn var ætlaður til styrktar þessari framleiðslugrein. Í seinni tíð hefir þetta mikið breyst, og hafa úr sjóðnum verið lánaðar stórar fjárupphæðir til hafnarbóta, t. d. hjer í Reykjavík og víðar. Upphæðir þessar hafa verið svo stórar, að sjóðurinn hefir liðið við þær, sem lánsstofnun bátaútvegsins. Auðvitað hefir verið gripið til sjóðsins í nauðsyn, þegar fje hefir ekki verið fáanlegt annarstaðar. Hefir þá stundum verið leitað samþ. sjútvn., sem þó hefir ekki verið sammála um að lána fje sjóðsins á annan hátt en reglugerð hans mælir fyrir um. Í frv. þessu er lagt til að auka sjóðinn með drjúgu tillagi úr ríkissjóði í næstu 5 ár, og þar að auki með því að gefa út vaxtabrjef. Nú er vitanlegt, að þótt vaxtabrjefin sjeu trygð, mun verða erfitt að selja þau innanlands. Vildi jeg því taka það fram í umræðum, þótt það sje tekið fram í frv., að til orða hefir komið hjá flm., að ríkið tæki lán til þess að kaupa vaxtabrjefin og ljetta þannig undir með sjóðnum, og gera hann færari til að ná tilgangi sínum. Að vísu eru til þessa fleiri leiðir, svo sem hvort komið gæti til mála að beina aftur til sjóðsins einhverju af þeim tekjum, sem honum voru upprunalega ætlaðar. En um þessi atriði og fleiri munu flm. tala við nefnd þá, er málið fer til.

Í frv. er gert ráð fyrir, að fiskveiðasjóðurinn fari eftir líkum reglum og fyrirkomulagi og ræktunarsjóður. Það er mjög vel til fallið, því að hjer er um tvær stofnanir að ræða, sem eiga að hjálpa landsmönnum til þess að afla sjer framleiðslutækja og möguleika til þess að komast áfram. Það er því mjög í samræmi, að fyrirkomulag verði svipað á þessum tveim sjóðum, og jafnvel að stjórn þeirra verði á sama stað.

Sje jeg svo ekki þörf til þess að tala lengi fyrir máli þessu nú, enda ætla jeg, að öllum hv. þdm. muni kunnugt, hve brýn þörf er á því að efla þenna sjóð eða aðra þá lánsstofnun, er gæti lánað bátaútveginum. Sú nauðsyn er mjög knýjandi fyrir alla þá, er bátaútveg stunda. Vona jeg, að frv. verði vel tekið, og fái að ganga til 2. umr. og sjútvn.