22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (1709)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þetta mál er gamall kunningi hjer, frá síðastliðnum þingum. Á síðasta þingi var skorað á stjórnina að athuga, hvað hægt væri að gera í þessu máli, og skipaði hún til þess þriggja manna nefnd. Fyrir sjútvn. liggur nú álit þeirrar nefndar í frumvarpsformi, en nefndin hefir ekki ennþá tekið afstöðu til þess.

Sýnist mjer, sem hv. flm. hafi tekið sjer frv. til fyrirmyndar og bætt inn í frv. sitt grein, samhljóða að mestu ákvæðum ræktunarsjóðsins. Lítur helst út fyrir, að flm. hafi hnuplað frv. frá nefndinni, sem hún hafði hugsað sjer að bera fram í einhverri mynd.

Um leið vil jeg benda á, að fyrir Ed. liggur frv. svipað þessu, til þess að bæta úr lánsþörf þeirra, er fiskiveiðar stunda, en gengur töluvert lengra. Það er frv. til l. um veðlánasjóð fiskimanna.

Jeg mun greiða þessu frv. atkv. til sjúvtn., og legg til, að þar verði þessi þrjú frv. athuguð, og þar með reynt að samrýma þau og gera úr þeim eitt frv. Öllum hlýtur að vera ljóst, að þetta er mjög mikið nauðsynjamál fyrir bátaútveginn, og er þetta því sannarlega orð í tíma talað, að hefjast handa. Það er alveg rjett hjá hv. þm. Vestm. og öðrum flm., að taka þarf stórt lán til þess að koma upp öflugum sjóði. Þetta felst einnig í frv. um veðlánasjóð fiskimanna. Er því verkefni fyrir þetta þing að búa út lög um þennan sjóð, svo að hann gæti komið að verulegum notum um leið og heimildin er veitt til að mynda hann.

Jeg vil taka það fram, að jeg er fyllilega vinveittur hugmynd þeirri, sem kemur fram í þessu frv., og vil ekki á neinn hátt bregða fæti fyrir þau ákvæði, sem hægt er að samrýma við þau frv., sem fram eru komin og stefna að svipuðu marki.