22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (1712)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg vil segja hv. þm. Vestm. það, þegar hann er að tala um, að nauðsyn hafi borið til að bera fram þetta mál í frv.formi, að þar sem hann á sæti í sjútvn., þá gafst honum um leið tækifæri til að gera allar umbætur á því frv., er þar lá fyrir.

Það litla, sem um málið hefir verið rætt í nefndinni, hefir gengið í aðra átt en að tala um það, hve mikils virði það væri. Það kemur öllum undantekningarlaust saman um, að sjálfsagt sje að leggja rækt við það. En það kom líka fram þá, að Íhaldsmenn í nefndinni sögðust vera með annað frv.

Þá skal jeg svara hv. 2. þm. (G.-K. því, að jeg hjet fylgi mínu við málið alment, og benti þá um leið á það frv., sem komið er fram í hv. Ed., frv. til laga um veðlánasjóð fiskimanna. (ÓTh: Það er alt annað mál!). Jeg tók það þá fram, að það væri hlutverk nefndarinnar að taka saman og samræma það úr þessum frv., sem best væri, og jeg býst við, að hægt verði að komast að ákveðinni niðurstöðu um það síðar, hvort ekki er hægt að útvega fiskimönnum okkar lán til þess að koma afurðum sínum í sæmilegt verð, og sömuleiðis að útvega þeim lán til skipakaupa. En frv. það, sem komið er fram í hv. Ed., gengur lang-lengst og er því best.

Þar sem hv. þm. vitnaði í milliþinganefndina, þá skal jeg einmitt benda á, að forseti Fiskifjelagsins átti þar sæti, og er einn af tillögumönnum. Jeg skal játa það, að þetta frv. gengur skamt, en það stendur þó til bóta í nefndinni, og jeg geri ráð fyrir því, að forseti Fiskifjelagsins gangi ekki móti þeim boðum, sem hann hefir lýst í nefndinni. — Jeg sagðist skyldi fylja því í málinu, sem gott væri, en benti á um leið, að það er meginvilla, að afnema sjóveð. (MG: Það er ekki alt sjóveð). Jú, það er það að vissu leyti. Það er til að gera lögin kraftlaus, og líka verð jeg að benda hv. flm. á, að þetta er kanske tæplega hægt, því að það eru til gildandi lög um þetta. Þau lög verða að vísu endurskoðuð, samkvæmt þingsályktun, sent hjer var gerð í fyrra, svo að það er nokkuð snemt að ákveða nú rýrnun á lögum, sem ekki verður breytt fyr en ef til vill á næsta þingi. Ef ætti að fylgja þessu frv. sem rýrnun á veði fyrir þeirri tryggingu, sem sjómenn hafa nú fyrir verkalaunum sínum, þá mun jeg ekki fylgja því.