03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (1716)

114. mál, Fiskiveiðasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli hæstv. forseta á því, að frv. til l. um fiskiveiðasjóð, sem vjer sex þdm. fluttum hjer í deildinni, hefir, að því er mjer finst, orðið nokkuð útundan með að komast á dagskrá. Frv. var vísað til 2. umr. 22. febr. og kom fram nál. frá minni hl. 22. mars, og frá meiri hl. 28. mars.

Með því að hjer er um mikilsvert mál að ræða, að því er snertir lánsfje handa sjávarútveginum, og hv. þm. munu á eitt sáttir um að efla þurfi fiskiveiðasjóðinn, svo sem verða má, á einhvern veg, vildi jeg mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki mál þetta á dagskrá sem allra fyrst.

Frv. var ekki á dagskrá tekið framar.