10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er ekki af venjunni brugðið, þótt samgmn. fái nokkrar hnútur. Það er alvanalegt, einkum þegar hún vill eitthvað gera til þess að draga úr kostnaðinum. Þá finna menn best þörfina, sem alstaðar er fyrir flóabátaferðir. En annars heyrast oft raddir um það, að þær sjeu ekki svo nauðsynlegar og að vel mætti bæta þær upp með öðru, að miklu eða öllu leyti.

Hv. þm. Borgf. (PO) byrjaði með að vísu hógværum ákúrum til nefndarinnar og taldi víst, að ekki fengist lækkaður styrkurinn til bátanna frá því, sem nú er. En samgmn. áleit, að með minkandi útgerðarkostnaði ætti að minka styrkurinn frá því opinbera. Það skal að vísu játað, að hingað til hafa styrkirnir verið svo litlir, að ýmsir flóabátanna hafa verið í sífeldri fjárþröng. Hv. þm. talaði um ósamræmi í lækkununum. Það er rjett, að þar kennir nokkurs ósamræmis, en varla verður mjer fyrir mitt leyti borin á brýn hlutdrægni eða hreppapólitík í því efni, þar sem Djúpbáturinn, er næstur stendur mínu kjördæmi, er færður mest niður. Lækkunin á honum er 3000 kr. Við aðra báta nemur lækkunin í flestum tilfellum 5–10%, nema til Hornafjarðarbátsins. Úr því hjeraði berast sífeldar kvartanir um samgönguleysi, og vildi nefndin sýna hjeraðsbúum velvild með því að láta styrkinn standa í stað. Lagarfljótsbáturinn stendur og í stað eftir till. samgmn. En til þeirra ferða var fyrir skömmu keyptur nýr bátur og betri en hinn fyrri. Þess ber og að gæta, að vörur þær, sem flytjast eiga með honum, verður fyrst að flytja alllanga leið á landi, og eykur það mjög kostnaðinn. — styrkur til Flateyjarbátsins er lagt til, að lækki um 1000 kr. Hv. þm. Borgf. hefir litið skakt á þetta atriði, er hann taldi, að þessi styrkur væri að till. nefndarinnar óbreyttur. Auk þess, sem sá bátur á að hafa á hendi ferðir um Austur-Barðastrandarsýslu, er honum ætlað að annast siglingu til vesturhluta Dalasýslu, með viðkomum í Salthólma og Skarðsvík, þegar hann hefir tíma til. Þess má og minnast, að í þessum ferðum var áður ljelegur bátur, sem aðeins sigldi milli Flateyjar og Barðastrandar. En 1926 var keyptur nýr bátur, sem fullnægir betur þörfum hjeraðsins. Var áreiðanlega í það ráðist meðfram eða eingöngu vegna loforðs um aukinn styrk.

Þessu næst talaði hv. þm. um Borgarnesbátinn og hjelt, að það mundi draga úr þeim notum, sem Borgfirðingar og Breiðfirðingar hafa af honum, ef styrkur til hans væri lækkaður. En það er nú komið á daginn, að í ár hefir verið samið við forráðamenn þessa báts um að halda uppi ferðunum, einmitt fyrir þá upphæð, er samgmn. leggur til, 31500 kr. Þó á hann að fara einni ferð fleira til Breiðafjarðar en áður. Þetta sýnir, að þegar útgerðarkostnaðurinn lækkar, má jafnframt lækka styrkinn. — Jeg get, út af orðum hv. þm., skýrt frá því, að Hvalfjarðarbáturinn hefir sent skýrslu um ferðir sínar og áætlanir. Er ljóst, að hann gerir mikið gagn. En það er í samræmi við annað, að styrkur til hans er lækkaður um 10%. — Styrkir til Rauðasandsbáts og Mýrabáts eru svo litlir, að ekki þótti tiltækilegt að sníða af þeim.

Hv. þm. V.-Sk. (LH) mæltist til þess við nefndina, að styrkur til „Skaftfellings“ yrði feldur niður af flóabátastyrknum og settur á strandferðirnar. En eins og hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ) tók fram, er þessi bátur einstakra manna eign og hjeraðsbúar einir ráða áætlunum hans. Hann er því háður alveg sömu reglum og aðrir flóabátar, og því ekki ástæða til að taka hann einan út úr. Það er auðvitað rjett, að ekki er hægt að gera alveg fastar áætlanir um ferðir þessa báts, vegna hafnleysisins austur þar, en einmitt af þessum orsökum getur báturinn síður talist strandferðaskip. Enda siglir hann víðar en austur í Skaftafellssýslur. Jeg hefi t. d. sjeð hann í flutningaferð vestur á Ísafirði. Er ekkert nema gott um það að segja, að flóabátarnir afli sjer þannig nokkurra aukatekna á þennan hátt, því langt er frá því, að ríkissjóðsstyrkurinn ásamt fargjöldum og farmgjöldum nægi til að sjá útgerðinni borgið. Það má fullyrða um bátana alment, að fjárhagur þeirra er þröngur.

Það var eðlilegt, að háttv. 4. þm. Reykv. fyndi til þess, að lítið liggur fyrir samgmn. um þessar ferðir. Fæstir bátarnir senda skýrslu fyr en seint og síðar meir, — sumir aldrei. T. d. fæst ekki stafur frá Eyjafjarðarbátnum um það, hvað hann aðhefst. Þó hefir nefndin á fyrri þingum lagt áherslu á að fá þá skýrslu. Fyrir síðastl. ár hafa aðeins borist skýrslur frá 4 bátum: Borgarnesbátnum, „Skaftfellingi“, Hvalfjarðarbátnum og Djúpbátnum. En það er alveg sýnilegt, að erfitt er fyrir þá, sem ekki hafa fylgst með þessum málum árum saman, að átta sig á, hvernig skifta beri styrknum, þegar lítil gögn liggja fyrir.

Hv. þm. V.-Húnv. (HJ) þótti styrkirnir til Flateyjarbátsins og Djúpbátsins vera sjerstaklega háir. En menn verða að muna, að Flateyjarbáturinn er eina samgöngubótin, sem AusturBarðastrandarsýsla nýtur. Þar koma engin strandferðaskip og þar eru engir þjóðvegir. Svipað má segja um Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar eru engir þjóðvegir eða aðrar samgöngubætur á landi, og auk Djúpbátsins engar samgöngubætur á sjó, nema „Esja“ kemur stöku sinnum í Bolungarvík. Samt er þetta ein af stærstu og fjölmennustu sýslum í landinu. Hjer stendur og svo á, að þótt styrkurinn væri lækkaður á þessum stað, gæti það ekki orðið til neins sparnaðar, því að þá yrði póstsjóður að halda uppi ferðum. Báturinn hefir nokkrar viðkomur í Vestur-Ísafjarðarsýslu; væri ekki hátt áætlað, að hann fengi 3 þús. kr. fyrir þær, og 10–12 þús. kr. má ætla honum fyrir póstferðirnar. Þegar þetta er dregið frá styrkupphæðinni, sjá menn, að ekki er mikið eftir til samgöngubóta fyrir heila sýslu. Síst getur það talist mikið, þegar í engri sýslu landsins eru jafnörðugar samgöngur, nema í Austur-Barðastrandarsýslu einni.

Hv. þm. N.-Þ. (BSv) saknaði upptalningar á viðkomustöðum Eyjafjarðarbátsins. En þetta stafar af þeim eðlilegu ástæðum, að aldrei hefir komið nokkur stafur frá aðstandendum þess báts. Nefndin hefir alls ekki sjeð áætlanir bátsins, og gat því illa vitað um ferðir hans til Norður-Þingeyjarsýslu. En það er skýrt tekið fram í nál., að styrkirnir eru bundnir því skilyrði til allra bátanna, að ferðir verði ekki færri nje farkostir lakari en síðasta ár. Þetta virðist mjer, að ætti að nægja til þess að tryggja ferðir bátsins til Norður-Þingeyjarsýslu. Enda er engin leið að telja upp alla viðkomustaði bátanna í nál. Samgmn.menn eru því samþykkir, að báturinn hafi viðkomur á Kópaskeri og Raufarhöfn, og taki jafnvel upp viðkomu á Þistilfirði, og það þegar á þessu ári. Annars hefir ekki enn tekist að ná samkomulagi við Eyjafjarðarbátinn um ferðir hans á þessu ári. Stafar það af því, að í fjárlögum fyrir 1928 er ekki gert ráð fyrir nema 6 þús. króna styrk til bátsins. En þar sem póststjórnin hefir nú felt niður styrk til bátsins vegna póstferðanna, er nauðugur einn kostur að greiða honum aukinn flóabátastyrk úr ríkissjóði.

Annars er ekki til þess ætlast, að altaf sje farið nákvæmlega eftir þeim tillögum, sem í nál. eru nefndar, heldur verður að greiða það, sem nauðsyn krefur, ef um óhjákvæmilegar ferðir er að ræða, en það telur nefndin vera um allar þær bátaferðir, er í nál. greinir.

Eftir því sem jeg fjekk upplýsingar um í dag, sparar Eyjafjarðarbáturinn póstsjóði um 8500 kr. útgjöld. Því að auk þess sem hann hefir með höndum póstferðir um Eyjafjörð, heldur hann jafnframt uppi póstferðum milli Siglufjarðar og Kolkuóss. Sparar hann landpósta á þessu svæði og á að rjettu lagi að fá þóknun fyrir það úr póstsjóði.

En það er bæði erfitt og dýrt fyrir bátana að vera bundnir við póstferðirnar. Þær falla sjaldnast saman við aðrar þarfir hjeraðanna.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um álit nefndarinnar.