01.03.1928
Neðri deild: 36. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (1722)

125. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Gunnar Sigurðsson:

Þetta frv. er sprottið af þeim mikla sparnaðarhug, sem greip þjóðina fyrir nokkrum árum, að það ætti að bera niður hvar sem væri, til þess að fækka embættum. Jeg hefi ávalt verið eindregið á móti því, að leggja þetta embætti niður, enda þótt jeg hafi vitað, að það hafi einatt verið áhættusamt, út af kjörfylgi; og jeg tek undir það með hv. þm. Dal., að jeg tel alveg ófært, að þetta frv. nái fram að ganga.

Jeg tel ekki einungis, að í framtíðinni verið haldið þessu embætti, heldur verði bætt sendimönnum í framtíðinni. Þeim peningum er ávalt vel varið, sem eytt er til þess að kynna landið út á við og afla markaðs fyrir afurðir þess. Það verður nauðsylegur liður í sjálfstæðis- og framsóknarbaráttu okkar.

Hinsvegar hefi jeg æfinlega fylgt þeirri reglu undantekningarlaust, að vilja leyfa öllum málum í nefnd. En jeg tel það vanvirðu, ef frv. verður látið ganga fram.