16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (1731)

128. mál, fiskiræktarfélög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

* Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. Borgf. gerði fyrirspurn viðvíkjandi ákvæðum 1. gr. um fiskihverfi. Það er alveg rjettilega tekið fram, að það kemur ekkert ákveðið fram um þetta í greinargerð frv. og okkur láðist að geta þess í nál. Jeg hefi skilið orðið „fiskihverfi“ þannig, að það ætti við öll þau vötn, er falla í sama ós til sjávar, og að fjelasskapurinn yrði í raun og veru miðaður við það. Jeg get nefnt Borgarfjörð sem dæmi. Jeg hefði hugsað mjer, að þar væri í fiskihverfi allir þeir menn, sem hafa veiðirjettindi við allar ár, sem í Hvítá falla og í hennar ós til sjávar. Jeg sje enga ástæðu til, að það taki yfir stærra svæði, nema hlutaðeigendur óski eftir og samþykki. En það leiðir af sjálfu sjer, að allir, sem eiga veiðirjett við ár og vötn, sem falla í sama ós, þeir verði að vera í sama fjelagi.

Þá er það viðvíkjandi 6. gr. um bætur fyrir kostnað við veiðiaukningu. Það er ekkert sagt um það, á hvern veg þetta skuli meta, samkvæmt þessari grein; aðeins er svo að orði komist, að fyrir veiðiaukningu skuli greiddar bætur. Jeg býst við, að þetta muni verða komið undir mati manna. Jeg tel hugsanlega möguleika, að leiguliði hafi gert svo miklar veiðibætur, að áður en hann færi frá jörðunni, sje hann búinn að fá meira en sinn kostnað upp borinn. Mætti þá náttúrlega segja, að hann bæri ekki skarðan hlut, þó að honum sje ekki bætt. En á það ber þó að líta, að jörðin er fyrir slíkar aðgerðir í hærra verði en áður, og eigandi hefir fyrir starf leiguliða fengið verðmæti. Enda verð jeg að lýsa yfir því, sem minni skoðun, að mjer þætti sanngjarnt, að eigandi greiddi sitthvað fyrir.

* Ræðuhandr. óyfirfarið af þm.