10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf að svara hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) nokkrum orðum út af því, að þeir veittust töluvert að mjer, vegna þess að jeg sagði, að nær væri að styrkja þá menn til að koma sjer upp sæmilegum húsakynnum, sem byggju við fjallvegi, heldur en þá, er yrðu fyrir átroðningi af skemtiferðafólki um hásumarið. Virtust þeir hneykslast mjög á því, að jeg skyldi leyfa mjer að gagnrýna skoðun þeirra á þessu máli. Hv. 2. þm. G.-K. vildi halda því fram, að það væri ekki svo mikil þörf á því að hafa stór húsakynni á þeim bæjum, sem væru við fjallvegi, því þó þar bæri mann að garði, þá væri þar aldrei nema um einn og einn að ræða og kæmi mjög sjaldan fyrir, að taka þyrfti á móti mörgum í senn. En jeg vil leyfa mjer að segja hv. þm. það, að bæði á þessum stað og mörgum öðrum, sem við fjallvegi eru, er það alltítt, að marga beri að garði í einu, og ekki ósjaldan, að þeir sjeu þá bæði blautir og kaldir og yfirleitt illa til reika. Verður þá heimilisfólkið að sætta sig við að ganga úr rúmi og vaka oft og tíðum alla nóttina við að þurka vosklæðin, svo gestirnir geti fengið klæði sín þur og þrifuð daginn eftir. Svona er nú ástandið. Háttv. þm. var í þessu sambandi að tala um það, að nauðsynlegt væri að byggja yfir íslenska þjóðarsómann. Jeg held hann ætti þá fyrst að snúa sjer að því að líta eitthvað eftir Sæluhúsunum íslensku, sem eiga að vera athvarf manna, sem bæði eru blautir og kaldir, eins og oft vill verða á ferðalögum hjer á landi á vetrinn. Jeg geri ráð fyrir því, að háttv. þm. hafi ferðast það mikið, að hann þekki sæluhúsin og viti, hve vistleg þau eru og hve mikil þægindi þau hafa að bjóða. Þar veitti áreiðanlega ekki af að gera þjóðarsómanum hærra undir höfði. — Nei, það er nú eitthvað annað en að það sje verið að hugsa um það. En þegar farið er fram á að byggja yfir fólk, sem bregður sjer upp í sveitirnar á sumrin til þess að skemta sjer, — jú, það er sjálfsagt, því það er svo nauðsynlegt, að þetta fólk, sem baðar sig í sólskininu og sveitasælunni allan daginn, eigi athvarf í góðu gistihúsi að þessu dagsverki loknu! Þarna á að byggja yfir þjóðarsómann!! Og jeg verð að segja það, að af því að mjer finst, að þessi hugsunarháttur eigi sjer oftlega alt of djúpar rætur hjer í þinginu, þá þorði jeg ekki að bera fram lítilsháttar beiðni um styrk til húsabóta, sem sennilega hefði í sárfáum tilfellum orðið skemtiferðafólki að liði, — heldur hröktum langferðamönnum. Og jeg held, þó að hv. 3. þm. Reykv. hjeti mjer sinni góðu aðstoð, þá muni þetta eiga sjer of djúpar rætur hjer til þess að hún dugi.

Hv. 3. þm. Reykv. var líka að tala um það, hvað nauðsynlegt væri að geta hýst og tekið á móti skemtiferðafólki, og talaði í því sambandi um fornmenjar og náttúrufegurð af mikilli hrifningu. Jafnframt skýrði hann frá því, hvað það væri mikilsvert og hvílíkur búhnykkur það væri og hvílíkt silki þjóðin gæti spunnið úr því að laða til sín ferðamenn, og gat þess, hvað gert væri t. d. í Noregi til þess. En hjer er alt öðruvísi ástatt. Þar er það svo, að hótel er við hótel, en hjer er ekki um slíkt að ræða. Þessir ferðamenn mundu ekki gera annað hjer en að valda töfum og truflunum um mesta annatímann, þegar öllum ríður lífið á að afla sem mestra heyja, svo jeg hygg mjög vafasamt, hversu mikla aukningu á þjóðarauðnum það mundi hafa í för með sjer, þó fleiri væru teygðir hingað. Svo er það ekki fleira, sem jeg þarf að svara þessum þm.

Þá vildi jeg segja fáein orð út af ræðum tveggja hv. þm. úr samgmn. Um aðra er nú svo farið að vísu, að sú till., sem hún fjallaði um, hefir verið tekin aftur, svo ekki er ástæða til að fara frekar út í það. En hitt var það, er hv. þm. V.-Húnv. (HJ) var að tala um, að rjett væri að áskilja, að þau hjeruð, sem nytu styrks til bátaferða, legðu fram fje á móti ríkissjóðstillaginu. En þetta er fjárhagslega alveg sama; því eftir því sem styrkurinn er hærri, eru far- og farmgjöldin lægri, og svo þvert á móti. Svo þetta kemur alveg í sama stað niður. Þá skal jeg og benda á það í sambandi við það, sem sami hv. þm. sagði til varnar því, að styrkurinn til Lagarfljótsbátsins var ekki lækkaður, nefnilega að báturinn væri nýr, að jeg held, að hann hafi fengið ríflegan styrk úr ríkissjóði árið 1926 eða '27, að upphæð 5 þús. kr., að því er mig minnir, og stóð sú styrkveiting einmitt eitthvað í sambandi við það, að kaupa ætti nýjan bát eða nýja vjel í bátinn. Jeg held, að jeg muni þetta rjett, en annars þori jeg ekki að fullyrða þetta, því jeg hefi ekki slegið því upp.

Jeg þarf svo ekki að tala frekar um þetta, því jeg býst við, að hvað snertir þá báta, er við koma mínu kjördæmi, þá hafi stjórnin óbundnar hendur til þess að veita þeim nauðsynlegan styrk úr ríkissjóði, þó þessi till. verði samþ. Líka skal jeg geta þess, að lækkun á styrk til Borgarnesbátsins gæti orðið þess valdandi, að hann yrði að fara færri ferðir, og mundi það þá bitna á Breiðafjarðarferðunum.