19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (1750)

133. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Bernharð Stefánsson:

Mjer þykir rjettara að vekja athygli á brtt., sem jeg hefi leyft mjer að flytja við þetta frv., á þskj. 496.

Jeg skrifaði undir nál. landbn. um þetta mál með fyrirvara. Þessi fyrirvari minn þýddi nú ekki það, að jeg vildi ekki gjarnan leggja til, að selurinn yrði ófriðaður í Ölfusá, og þess vegna gat jeg vel gengið inn á, að það aðalatriði frv. yrði samþykt, og sá því ekki ástæðu til að kljúfa nefndina, eða koma með sjerstakt nál. En á hinn bóginn sje jeg ekki ástæðu til þess, að farið sje að greiða bæturnar fyrir þetta úr ríkissjóði að neinu leyti. Þetta er að vísu smávægilegt atriði, og má segja, að ríkissjóð muni ekki mikið um að greiða bæturnar, en mjer finst satt að segja, að þetta sje svo lítilfjörlegt, að ekki taki því, að vera að greiða bætur úr ríkissjóði fyrir annað eins og þetta.

Fyrri brtt. mín er um að fella niður úr 2. gr. frv. ákvæðin um það, að ríkissjóður skuli greiða bæturnar, en síðari brtt. mín fer fram á að fella niður síðari málslið 3. gr., að ríkissjóður skuli greiða ábúandanum á Arnarbæli bæturnar, á meðan núverandi prestur er þar.

Það hefir verið svo, þegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að eyða skaðadýrum, eins og t. d. refum, þá hefir það venjulega verið hlutaðeigandi sveit, sem hefir borið gjöldin af því, án þess leitað hafi verið til ríkissjóðs.

Mjer er þetta ekki nokkurt kappsmál; málið er ekki þess vert. En þar sem jeg átti sæti í þeirri nefnd, sem átti að fjalla um það, þá þótti mjer, þó rjettara að gera tillögu í þessa átt, því með því móti fær málið, að mínu áliti, betri afgreiðslu.