19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (1753)

133. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil ekki deila við hv. frsm. um þetta mál. En mjer fanst það koma úr hörðustu átt, er hann fór að tala um smámunasemi í sambandi við það. Því ef það eru ekki smámunir, sem hv. frsm. er að berjast fyrir í þessu máli, þá veit jeg ekki hvað eru smámunir.

Til að rjettlæta þessa beiðni um ríkissjóðsstyrk, tók hv. frsm. það fram, að fyrst um sinn yrðu litlar nytjar af þessari ráðstöfun, fyrir laxveiði-eigendur. En svo má segja um ótal margt fleira, sem gert er til umbóta, og fara menn þó ekki fram á borgun úr ríkissjóði fyrir hvert smáræði. Hann taldi útrýmingu selsins stórvirki, sem þyrfti að borga mönnum fyrir að framkvæma, en síðar lýsti hann því með mörgum orðum, hve mikill selaher væri í árósunum, svo að þótt eitthvað tapaðist, þá skil jeg ekki í öðru en að töluverðar tekjur yrðu af þessu seladrápi, svo að eigi þyrfti að borga mönnum sjerstaklega fyrir það. Víðast hvar mundi það vera svo, ef mönnum væri hleypt í selalátur og mættu drepa þar selinn eftir vild, að flestir vildu fremur greiða eitthvað fyrir þau rjettindi en hið gagnstæða.

Eftir því sem fram hefir komið, eru eigi nema fáir menn, sem missa nytjar af selveiði við frv. þetta, og ætti því ekki að geta verið um háar skaðabætur að ræða. En ef ástæða þykir til, að hið opinbera láti fje af höndum í þessu skyni, þá ætti það að vera sýslusjóður, sem gerði það.

Hv. frsm. kvaðst hissa á, að mjer fyndist málið svo mikilsvert, að jeg kæmi fram með brtt. við það. Jeg tók nú einmitt fram, að mjer fyndist það ekki mikilsvert, og sama segi jeg enn. En úr því að jeg var í nefndinni, lagði jeg blátt áfram það til, sem mjer fanst rjettast. Jeg get svo sem þolað, að ríkið borgi þennan kostnað, en mjer finst það óþarfi. Hv. frsm. kvaðst ekki mundi vera á móti Eyfirðingum í slíku máli sem þessu. Jeg þykist nú hafa sýnt það í hinum stærri málum, að jeg er ekki óvinur Árnessýslu. Jeg hefi greitt atkv. með miklu stærri fjárframlögum en þessu til Árnessýslu, en einmitt af því að mjer finst hjer vera um óþarfa að ræða, og smásmuglegt er að fara fram á tillag úr ríkissjóði í þessu skyni, hefi jeg flutt þessa tillögu. Ekki var farið fram á bætur úr ríkissjóði fyrir Nikulásarker, og flutti þó hv. frsm. till. um að friða það.