19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (1754)

133. mál, ófriðun sels í Ölfusá

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það græðist nú víst lítið á frekari umræðum um þetta mál. En hv. 2. þm. Eyf. hefði átt að nefna, hver kostnaðurinn yrði fyrir ríkissjóð. Það er vitanlega altaf hægt að kasta svona fram, en jeg álít ekki ástæðu fyrir hann að leggjast á móti málinu, nema um töluverðan kostnað væri að ræða. Það er ekki meiningin, að menn fái neitt fyrir að útrýma selnum, heldur aðeins það, að greiddar sjeu hálfar bætur til manna þeirra, sem missa hjer frambúðar selveiði, en þó eigi lengur en á meðan laxveiði er að aukast til jafns við það tjón, er af seladrápinu leiðir (BSt: Nál. gerir ráð fyrir, að bætur sjeu greiddar þeim, sem drepa selinn). Þá hefir hv. þm. ekki lesið nál.

Jeg þarf ekki að svara hv. 1. þm. Rang. En ef honum hefði verið ant um þingmannsheiður sinn, hefði hann átt að bera fram aðra ástæðu en hann gerði, fyrir því að vera á móti frv., og ekki átt að láta saklausa menn gjalda mín, ef jeg hefi eitthvað af mjer brotið í hans augum. Ef prósentutala yrði tekin af mínum ræðum og hans, geri jeg ráð fyrir, að hans tala yrði fult eins há.

*Ræðuhandr. óyfirfarið af þm.