08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (1770)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get sagt það, að mjer þykir væni um þetta frv. að því leyti, að það sýnir áhuga hv. flm. fyrir því, að útvarpsmálinu geti orðið hrundið í framkvæmd sem fyrst. Frv. ber vott um, að menn skilja, hvílíkt menningarmál útvarpið er. Og það er mjög gleðilegt, að jafnframt því sem stjórninni er gefin heimild til að stofna og starfrækja útvarpsstöð, komi fram viðleitni til þess að afla fjár til hennar. Að því leyti sem frv. ber vitni um slíka viðleitni, hefi jeg ekki annað en gott um það að segja. Hinsvegar vildi jeg skjóta því til þeirrar hv. nefndar, sem þetta frv. fær til umræðu, hvort hjer sje ekki um of blandað saman tveim málum, þjóðleikhúsmálinu og útvarpsmálinu. Jeg er hræddur um, að hjer sje aðeins tjaldað til einnar nætur fyrir útvarpið, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að fje sjóðsins sje varið í þess þarfir lengur en þangað til þjóðleikhúsið þarf á því að halda. Sjóðnum ræður líka sjerstök stjórn, og það er á hennar valdi að ákveða, hvenær byrjað verði á framkvæmdum. Þetta vildi jeg einnig að hv. nefnd athugaði.

Jeg vil loks geta þess, að mjer virðist rjett, að frv. sje vísað til fjárhagsnefndar. Það er í rauninni hreint fjárhagsatriði, hvernig fjárins skuli aflað til útvarpsins. Sjálft útvarpsmálið hefir verið fengið annari nefnd til meðferðar, eins og rjett var. En hjer er eingöngu um fjárhagshlið þess að ræða, og því á frv. heima í sömu nefnd og önnur fjárhagsmál.