08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (1771)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Eggerz:

Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða það, að ýmsum þeim mönnum, sem eru vinir þjóðleikhússins, standi stuggur af þessu frv. Þeir óttast það, að svo geti farið, að ef farið er á annað borð að lána fje þjóðleikhússjóðsins til þess að reka ríkisútvarp, yrðu seinar heimtur á því aftur. Gæti það orðið til þess, að bygging þjóðleikhússins drægist lengur en æskilegt væri og nú er ætlast til. Mjer er kunnugt um, að stjórn sjóðsins hefir jafnvel haft í hyggju að byrja á byggingunni þegar næsta sumar. Jeg tek því alveg undir þau ummæli hæstv. forsrh., að hjer mundi vera tjaldað til einnar nætur. Og jeg held, að það sje óhyggilegt, að byggja framtíð útvarpsins á slíku bráðabirgðaláni sem þjóðleikhússjóðurinn yrði, þ. e. a. s., ef ekki á að tefja byggingu leikhússins óhæfilega lengi. Það er hreint ekki rjett, að byggja svo mikið menningarmál sem útvarpið er, á svo óstöðugum fjárhagsgrundvelli.

Hæstv. forsrh. tók það alveg rjettilega fram, að taka þyrfti til athugunar, á hvern hátt yrði aflað fjár til ríkisútvarpsins. Þess vegna styð jeg þá tillögu hans, að frv. sje vísað til fjhn. Sú nefnd mundi þá, jafnframt því, sem hún tekur afstöðu til frv., reyna að athuga, hverjar leiðir sjeu færar til að fá það fje, sem með þarf. Þó að jeg sje sjálfur í fjhn., vil jeg eigi mæla hana undan þeirri fyrirhöfn, sem hún kann að hafa af þessu, en vil fyrir mitt leyti reyna að styðja hæstv. forsrh. í því, að leita nýrra leiða til fjáröflunar.

Jeg vil svo að endingu vara hv. deild við því, að fara nú að samþykkja frv., því að margra áliti er það beinlínis banatilræði við þjóðleikhúsmálið. Byggingu leikhússins á að hefja undir eins og fje er fyrir hendi til þess. Það verður að finna annað ráð til þess að afla fjár til útvarpsins. Alþingi er ekki sæmandi að byggja annað eins framtíðar menningarfyrirtæki á bráðabirgðaláni.