08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1775)

135. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Auðunn Jónsson:

Eins og jeg tók fram í minni fyrri ræðu, vakir það fyrir okkur flm. frv. að benda á leið til að hrinda útvarpinu sem fyrst í framkvæmd. Og jeg get ekki sjeð, að tillaga okkar geti með nokkru móti hindrað framgang þjóðleikhúsmálsins. Vitanlega er það ekki nema eðlilegt og þarf engum að koma á óvart, þó að stjórn sjóðsins leggist á móti þessu. En jeg held, að það sje nokkuð fljótráðið af henni, ef hún ætlar sjer að byrja á byggingunni nú þegar, en geri þó ekki ráð fyrir, að henni verði lokið fyr en 1932. Svo langur tími er alveg óþarfur. Þess er líka að gæta, að það er yfirleitt ætlun manna, að dýrtíðin muni fremur fara lækkandi en hitt, og hefir sjóðurinn skaða af, að þegar sje byrjað, ef byggingarefni, verkakaup o. þvíl. fer lækkandi. Jeg held því, að þetta tal stjórnarinnar um að byggja nú þegar, sje að mestu fyrirsláttur, í því skyni að fæla Alþingi frá að samþykkja frv.

Því verður ekki neitað, að tekna þjóðleikhússins er aflað frá þjóðinni allri. En hinsvegar fer því fjarri, að leikhúsið geti orðið almenningi til beinna nota. Jeg ætla mjer eigi að fara að vekja hjer upp gamlar deilur. En þó þykir mjer ekki ótilhlýðilegt að rifja það upp, að þegar lögin voru samþ. um skemtanaskatt og þjóðleikhús, voru ýmsar bæjarstjórnir áður búnar að ráðstafa á annan hátt fje því, sem með lögunum var lagt til þjóðleikhússjóðsins. Svo var a. m. k. vestra. Og stjórn sjóðsins ætti að sjá, að það eru ekki nema hæfilegar sárabætur, þó að almenningur fái nú að njóta fjárins um stund, meðan ekki þarf á því að halda í hinum upphaflega tilgangi. Ekki ber að skilja frv. á þá leið, að við flm. viljum taka fram fyrir hendur stjórnarinnar um það, á hvern hátt hún aflar fjár til útvarpsins. En okkur finst liggja ákaflega beint við, að taka til þess fjár, sem þarna er ónotað. Ótti sjóðstjórnarinnar um, að ríkið muni eigi greiða fjeð af höndum aftur, fyrst um sinn, er ástæðulaus. Frv. tekur það einmitt fram, að sjóðnum skuli skilað, þegar með þarf, en við flm. álítum ekki gerlegt að byrja á byggingu þjóðleikhússins fyr en sjóðurinn er orðinn a. m. k. hálf milj. kr. Sennilega verður það dýrara en svo, og yrði framlag ríkisins nokkuð mikið, ef fyr væri af stað farið.

Loks skal jeg endurtaka tilmæli mín um að frv. verði vísað til mentmn. Jeg ætla, að þar eigi það heima og ekki annarsstaðar.