26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (1792)

45. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Flm. (Jón Baldvinsson):

Í fyrra var þetta frv. samþ. hjer í háttv. Ed. og afgreitt til Nd.; þar var því vísað til ríkisstjórnarinnar.

Farið er fram á það í þessu frv. að veita kaupstöðum heimild til þess að áskilja sjer forkaupsrjett á hafnarmannvirkjum, lóðum þeim, er að sjó liggja, og lóðum og löndum innan lögsagnarumdæmisins, svo og öðrum fasteignum, er bæjarfjelög nauðsynlega þurfa að eiga. Það liggur í augum uppi, að bæjarfjelagi er nauðsynlegt að hafa eignarumráð yfir eignum þeim, sem almenningur þarf að nota, eins og t. d. lendingarstaði o. s. frv., sem einstakir menn geta, ef í þeirra höndum er, haldið fyrir almenningi. Ætlast er til, að bæjarstjórnir geri sjálfar samþykt um þær eignir, er þær telja rjett að eiga forkaupsrjett að. Er tilætlunin, að ekki sje lengra gengið í þá átt en hæfilegt þykir. T. d. ekki gengið inn á þá braut, að leggja undir sig íbúðarhús o. s. frv., nema óhjákvæmilegt sje vegna legu þeirra. Það hefir komið fyrir, að seldar hafa verið eignir, sem sýnilegt var, að bæjarfjelagið átti að eiga. Þetta frv. á að fyrirbyggja, að slíkt komi fyrir.

Jeg býst við, að háttv. deild sje sama sinnis og í fyrra, og þykist því ekki þurfa að tala langt mál fyrir frv. Mjer þykir rjett, að því verði vísað til athugunar í nefnd, og þá til hv. allshn.