13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (1794)

45. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður. Þetta mál er margrætt hjer á þingi, og var samþ. hjer í deildinni á síðasta þingi með yfirgnæfandi meiri hl. Þótt nokkrar breytingar hafi orðið hjer í deildinni síðan, held jeg, að eigi sje ástæða til að ætla, að deildin hafi skift um skoðun. Það, sem olli því, að nefndin klofnaði, var það, að hv. 3. landsk. var andvígur frv., líklega sökum stefnu þess, og vildi gera svo víðtækar breytingar á því, að þær mundu hafa gert tilgang frv. að engu. Því eru lögð fram tvö nál. um málið.

Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, fer fram á að tryggja kauptúnum og kaupstöðum yfirráð yfir landi og hafnarmannvirkjum, svo að íbúarnir megi hafa jafnan rjett og aðgang að þeim. Það kann að þykja langt gengið, að hús einstakra manna heyri hjer undir, en það er aðeins undantekningaratriði, þegar svo stendur á, að þau liggja að hafnarvirkjum eða eru þrándur í götu fyrir því, að hægt sje að nota þau.

Komið hefir fyrir, að land hefir verið selt undan bæjum einstökum mönnum, eins og síðast kom fyrir á Akureyri, þar sem kaupmaður einn náði kaupum á landi, sem útlendingar áttu þar.