10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. samgmn. ( Jón Auðunn Jónsson):

Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að jeg hefði fyrir hönd samgmn. tekið aftur allár till. hennar. Þetta er fjarstæða ein. Hitt sagði jeg, að ekki væri til þess ætlast, að stjórnin væri svo fast bundin við tillögur nefndarinnar, að ekki mætti frá þeim víkja í einstökum tilfellum. Það getur oft komið fyrir, að grípa verður til hækkunar. Ekkert annað en þetta átti að felast í orðum mínum, er jeg mælti fyrir till. Samgmn. um bátaferðir.

Til rökstuðnings þessari skoðun nefndarinnar nægir að benda á eitt dæmi. Djúpbáturinn ætlaði einu sinni að hætta að annast póstferðir á Ísafjarðardjúpi. Stórtap varð á rekstri bátsins — jeg ætla þetta hafi verið 1923 —, svo að þeir, sem gerðu hann út, sáu sjer ekki fært að halda uppi þessum póstferðum lengur. En þá fengust þeir með 1000 kr. viðbót við styrkinn til þess að halda áfram. — Í slíkum tilfellum sem þessu er nauðsynlegt, að stjórnin hafi óbundnar hendur og geti tekið til sinna ráða, ef út af ber.

Það hefir verið kvartað undan því, að orðalagið í nál. um ferðir bátanna væri ónákvæmt. Þetta hefir verið tekið fram bæði af háttv. þm. N.-Þ. og hæstv. fjmrh. Í nál. er beinlínis sagt, að það sje skilyrði fyrir fjárstyrk, að ferðir sjeu ekki strjálli, viðkomustaðir ekki færri og farkostur ekki lakari en undanfarið. Fæstir þessara báta senda ferðaáætlanir og nefndinni er ókunnugt um viðkomustaði þeirra. Stjórninni er sett það í sjálfsvald, hvaða skilyrði hún setur. Þegar þetta, sem jeg fyr taldi, er haft í huga, þá er það fullkomin bending til hennar, hvers hún skal gæta í samningum við bátana.