26.01.1928
Efri deild: 7. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (1809)

46. mál, einkasala á síld

Jón Þorláksson:

Hv. flm. spurði, hvers vegna fyrverandi stjórn hefði ekki notað heimildarlögin frá 1926 og veitt einkaleyfi það, sem þar um getur. Þetta mál heyrði ekki undir mig, svo að svar mitt verður með fyrirvara. En jeg hygg, að sá fjelagsskapur, sem varð að myndast samkvæmt lögunum, hafi aldrei verið fullmyndaður. Þó veit jeg ekki betur en fyrv. hæstv. atvmrh. (MG) muni hafa gefið ákveðnum mönnum, sem líklegir voru til þess að stofna slíkt fjelag, loforð um, að fjelagið fengi leyfið nú frá þessum áramótum, ef samtök í þessu skyni kæmust á. Jeg veit því ekkert frekar um þann undirbúning, en geri hinsvegar ráð fyrir því, að hafi ekkert orðið af þessari fjelagsstofnun, þá sje því um kenna, að menn hafi rekið sig á einhverja þá annmarka, er samtökin strönduðu á.

En ef svo er, að menn hafi þóst sjá einhverja annmarka á framkvæmdum þess skipulags, sem heimildarlögin gera ráð fyrir, þá er hitt víst, að fleiri verða annmarkarnir á þeirri leið, sem hv. 5. landsk. stingur upp á í þessu frv. sínu. Jeg neita því ekki, að mörgu þarf að breyta í sambandi við þennan útveg, og efast heldur ekki um, að það sje vilji allra, sem að því máli standa, að umbæturnar fáist. En það er alls ekki nýtt skipulag um síldarsöluna, sem mest þörf er á, heldur hefir öllum komið saman um, að byrja þurfi annarsstaðar. Það er þegar fengin full reynsla fyrir því, að markaður fyrir saltaða síld er mjög takmarkaður, og verður á engan hátt bættur með nýju skipulagi á því sviði, svo að neinu nemi. Það, sem liggur því beinast fyrir að framkvæma, er að gera síldina að markaðshæfri vöru á annan hátt. Að þessu verður að vinna, því að dómi allra skynbærra manna er það eina lausnin á öllu þessu vandamáli.

Mjer finst því, að frv. hv. 5. landsk. geti menn rólega látið fara í sömu gröf sem því var búin hjer í þessari hv. deild í fyrra, og að haldið verði áfram að vinna að því á annan hátt að leysa þetta mikla vandamál.