10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að tefja umr. mikið. Jeg mun ekki blanda mjer inn í aðrar brtt. en þær, sem jeg er við riðinn. Að þessu sinni eru aðeins tvær brtt., sem nafn mitt stendur við, og hefi jeg áður gert grein fyrir þeim. En jeg er knúður til þess að segja fáein orð út af afstöðu hv. fjvn. til þeirra.

Um brtt. á þskj. 450 hefði jeg helst kosið, að háttv. nefnd hefði verið einhuga. Nú upplýsir hv. frsm. (IngB), að nefndin hafi ekki haft tækifæri til þess að taka afstöðu til hennar.

Ef ekki kemur til atkvgr. í kvöld, þá óska jeg eftir, að hv. fjvn. taki hana til athugunar. Þetta hlýt jeg að telja alveg sjálfsagt, eftir því sem vegamálastjóra og atvmrh. hafa farist orð. Jeg vil einnig óska þess, að í hvert skifti og beiðni kemur fram frá Rangæingum um fjárframlög til vegagerðar, að hv. þdm. minnist þess, að Rangæingar eru útilokaðir frá öllum strandferðum, þó sýslan að sjálfsögðu leggi fram sinn skerf, sem aðrar sýslur, til að bera uppi kostnaðinn við strandferðirnar.

Þá er önnur till., sem jeg ber fram, 435,XII., ásamt þeim hv. 1. þm. Skagf. (MG), hv. 2. þm. Rang. (GunnS) og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), en það er, að nýr liður bætist við 13. gr. fjárlagafrv., 12000 kr. til Fjallabaksvegar í Rangárvallasýslu. Það er ekki nema sanngjarnt, að jeg skýri það fyrir hv. þdm., hver þessi vegur er, einkum þar sem mjer heyrðist hv. frsm. vera því ókunnugur og hefi orðið þess var frá fleiri hv. þm., að nafn vegarins væri villandi, þó jeg hafi að vísu skýrt frá því áður. Vegur þessi heitir Fjallabaksvegur. Nafnið getur að vísu blekt menn til að halda, að hjer væri eingöngu um fjallveg að ræða. En svo er þó ekki. Vegur þessi liggur frá aðalflutningabrautinni móts við Meiritungu í Holtahreppi og er talinn sýsluvegur að Galtalæk í Landmannahreppi. Fjallvegur er hann svo rjettnefndur þaðan, yfir Landmannaafrjett og austur í Skaftafellssýslu. Þessi sýsluvegarkafli er því tengiliður frá aðalþjóðbrautinni við fjallveginn, sem liggur austur í Skaftafellssýslu. Hann er því mikið notaður af Skaftfellingum og eins af skemtiferðafólki á sumrum, er þar fer um til að skoða Heklu og hina fögru Landsveit. Eins og hann er nú, þá má heita, að hann sje ófær, þrátt fyrir þungt viðhald. Nú má telja það sem loforð frá vegamálastjóra og bæði fyrv. og núv. hæstv. stj., að lagt verði fram fje til viðgerðar á þessum vegi. Vona jeg, að hv. frsm. fjvn. heyri þetta og leggist ekki móti þessari sjálfsögðu sanngirniskröfu, sem ekki er af neinni eigingirni sprottin, heldur fullri þörf. Jeg er líka nærri viss um það, að ef hv. fjvn. hefði kynt sjer þetta mál nógu rækilega, þá hefði hún lagt til, að þessi fjárveiting væri samþykt. Þótt fjvn. geti ekki sint öllum fjárkröfum, þá er nær að bægja frá sjer allskonar bitlingum, og láta þá annað bíða, svo sem letigarðinn og sundhöllina, en veita heldur fjeð til bráðnauðsynlegra framkvæmda á verklegum sviðum. Jeg hefi hjer í höndum brjef frá þeim landskunna heiðursmanni Eyjólfi Guðmundssyni í Hvammi á Landi. Brjef þetta hefir legið hjá vegamálastjóra, og jeg get ásakað mig fyrir það að hafa ekki náð í það fyr og komið því til fjvn. Brjef þetta er nú svo langt, að jeg vil ekki þreyta menn á að lesa það upp, þar sem nú er orðið framorðið, þótt brjefið sje raunar vel þess vert. En með leyfi hæstv. forseta vil jeg þó lesa úr því nokkur orð: „Það er öllum, sem hjer þekkja til, kunnugt, að vegur þessi var í fyrstunni gerður vel akfær og kostnaðurinn við það greiddur úr sýslusjóði og einum fámennum hreppi (þ. e. Landmannahreppi), sem í þann tíma vann það til að gera ca. 20 km. akfæra af þessum vegi, gegn því, að sýslan kostaði þann part af honum, sem liggur í Holtahreppi. Þótti þetta þá rösklega gert af ca. 30 bændum, enda mun það eins dæmi hjer í Rangárvallasýslu, að nokkur einn hreppur hafi lagt á sig önnur eins gjöld í vinnu og peningum til vegagerðar eins og Landmenn lögðu þá á sig“. — Af þessu sjest, að Landmenn eru þess fyllilega verðir, að þeir sjeu styrktir, þar sem þeir hafa lagt mjög mikið á sig vegna þessa vegar. Þá skal jeg lesa hjer annan stuttan kafla úr sama brjefi.

„Klemens Jónsson, fyrv. ráðherra og þingmaður Rangæinga, mun hafa komist að þeirri niðurstöðu, að í raun rjettri væri hjer um þjóðveg að ræða, hvað sem nafni á honum liði, og mun hafa flutt frumvarp til laga þess efnis, að hann yrði tekinn í þjóðvegatölu. Þessi rjettláta og sjálfsagða krafa fjekk þó ekki nægilegt fylgi í hinu háa Alþingi, að líkindum, eins og áður er sagt, vegna ókunnugleika þingmanna. En upp úr þessu hafðist þó það, að fyrverandi atvmrh. og samgöngumálaráðherra Magnús Guðmundsson hjet 12 þúsund króna styrk til vegarins 1926“.

Þar sem vitnað er til Magnúsar Guðmundssonar ráðherra, þá er frá því að segja, að hann reið eftir þessum vegi sumarið 1926. Sá hann þá með eigin augum þörfina fyrir aðgerð á veginum og hjet að veita til þess 12 þús. kr. En þessi styrkur var aldrei hirtur. Mun það hafa stafað af því, að oddviti sýslunefndarinnar, sem er að vísu að mörgu leyti gegn maður, áleit, að með hinum nýstofnaða sýsluvegasjóði væri vegamálum sýslunnar komið í svo gott horf, að ekki þyrfti að taka þessa upphæð. Þetta er því í raun og veru endurveiting, en ekki ný krafa. — Þegar bæði vegamálastjóri og ráðherra hafa mælt með þessum styrk, þá skil jeg ekkert í hv. deild, ef hún legst á móti þessum litla styrk. Jeg mun þó ekki verða óvinur neins, þótt svo færi, að styrkur þessi yrði feldur, en mjer þætti það miður.