05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

53. mál, friðun á laxi

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Laxveiðalöggjöfin er eitt af þeim málum, sem hlýtur að vekja deilur, þegar fram koma till. um breytingar á henni. Nefndinni var því þegar ljóst í upphafi, að það væri miklum erfiðleikum bundið, að koma fram með breytingar á löggjöf þessari, sem engum gerðu neitt rangt til, en jafnframt yrðu til þess að auka not veiðinnar fyrir veiðieigendur alment, eins og í frv. á þskj. 56 er ætlast til. Það, sem farið er fram á í 1. gr., er það, að veiðitíminn verði ávalt hinn sami fyrir alla laxveiði, hvort sem er um net eða aðrar veiðivjelar að ræða, og að hann byrji aldrei fyr en 1. júní ár hvert. Sömuleiðis er farið fram á, að friðunartíminn í viku hverri sje lengdur úr 36 stundum upp í 60 stundir. Eða með öðrum orðum, að hann verði frá kl. 6 e. h. á föstudögum til kl. 6 f. h. á mánudögum. Með því að lengja friðunartímann þannig í viku hverri, eins og jeg held að líka sje komið í lög hjá Norðmönnum, er það ljóst, að laxinn fær greiðari göngu upp eftir ánum en hann hefir nú. Af því leiðir aftur, að meiri veiðivon verður hjá þeim, sem ofar búa með ánum, og þeim, sem búa við þverár, sem í laxveiðiár renna. Líka fá þeir laxinn fyr, og það eitt út af fyrir sig er ekki svo lítið hagsmunaatriði, því eins og kunnugt er, er laxinn miklu betri og verðmætari vara framan af sumri en þegar fer að líða að hausti, hvort heldur sem hann er notaður innanlands eða fluttur út.

Hagsmunir þeirra, sem efst og neðst búa við veiðiárnar, eru þannig að þessu leyti alveg andstæðir. Þeir, sem neðst búa, skaðast, ef friðunartíminn er lengdur, en hinir, sem ofar búa; hagnast af því. Það er því ekkert undarlegt, þó að fram komi mótmæli gegn lenging friðunartímans frá þeim, sem búa næst ósum ánna. Þannig hafa líka komið fram mótmæli gegn frv. þessu, frá fjórum laxveiðieigendum, sem búa neðst við Hvítá í Borgarfirði. Aftur á móti býst jeg við, að hægt væri að fá meðmæli með frv. þessu frá mörgum fjórum, sem veiðirjett eiga ofar í ánni.

Því verður nú ekki neitað, sem kemur fram í mótmælum Borgfirðinganna, að laxinn, sem fyrst gengur í árnar, sje verðmestur, og sá lax getur verið útflutningsvara, nema þar sem svo hagar til, að nýr lax gengur upp í árnar fram eftir öllu sumri; þar getur hann verið jafngóður.

Þeim, sem veiðirjett eiga í bergvatnsám, er auðvelt að taka svo að segja hverja skepnu, sem um árnar fer. Unglingarnir á bæjunum fylgjast oft með og athuga, hvað laxgengdinni líður. Er svo við tækifæri alt hirt, með ádrætti eða öðrum veiðivjelum. Þetta verður svo til þess, að þeir, sem ofar búa við árnar, fá litla eða enga veiði. Til þess nú meðal annars að ráða bót á þessu er frumv. þetta fram komið. Breytingar þær frá núgildandi laxveiðalöggjöf, sem í því felast, ganga allar í þá átt, að auka friðunartímann, til þess að gera laxinum greiðari göngu um árnar.

Landbn. hefir nú haft frv. þetta til meðferðar og fallist á aðalatriði þess, og vill meira að segja ganga lengra í friðunaráttina, með því að taka út úr núgildandi löggjöf rjett manna til að þvergirða á eða kvísl, enda þótt einn og sami maður eigi alla veiði í ánni eða kvíslinni, því að sá, sem þvergirðir þannig, eyðileggur ekki aðeins framtíðarveiði fyrir sjálfum sjer, heldur og líka fyrir eftirkomendunum, því að það er full vissa fyrir því, að laxinn legst þar frá, sem slíkar veiðiaðferðir eru notaðar. Hafa því á þennan hátt margar veiðiár með öllu verið eyðilagðar. Sömuleiðis er það álit margra, sem kunnugir eru þessum málum, að laxinn leiti aftur í sömu árnar og jafnvel sömu hyljina, sem hann er upp alinn í. Nefndinni hefir því fundist rjett að nema þetta úr lögum, til þess að koma í veg fyrir, að nokkur taki meira en honum ber á þennan hátt frá komandi kynslóðum.

Þá hefir nefndinni líka þótt rjett að koma með breytingartill. um, að banna að setja skot í hylji, af því að töluvert hefir verið gert að því í seinni tíð. En slík veiðiaðferð er með öllu óhæf, þar sem hver skepna, bæði ung og gömul, er drepin. Um þetta er ekkert ákvæði í núgildandi löggjöf, og því þótti nefndinni rjett að koma með till. til þess að bæta úr þessum ágalla laganna. Hvað stangaveiði snertir, þá er hún heimil allan veiðitímann, þrátt fyrir friðunartímann, 60 stundir í viku hverri, því að það er litið svo á, að hún skaði lítið, og laxinn geti hennar vegna gengið óhindraður um árnar.

Þá er annað atriði, sem frv. fer fram á. Í núgildandi lögum er bannað að leggja net eða aðrar veiðivjelar í árósa, þar sem slíkt geti hindrað göngu laxins upp eftir ánum. En í brtt. nefndarinnar er þetta svo, að bannað er að leggja net nær árósum en í 200 metra fjarlægð. Hitt ákvæðið, þar sem bannað er að draga á nær árósum en í 250 metra fjarlægð, er gert til þess, að koma í veg fyrir, að hægt sje með ádrætti að taka allan lax, sem safnast fyrir í árósunum. Með þessari fjarlægð er átt við 250 m. á hvorn veg frá árósunum, upp í ána, og fram í sjó. Þetta ákvæði á einnig, að tilætlun nefndarinnar, að ná til ósa við stöðuvötn og þverár, því að þar má ekki frekar hindra göngu laxins, til óhagræðis fyrir þá, sem ofar búa.

Einn nefndarmanna, háttv. 6. landsk., hefir sjerstöðu í þessu máli. Jeg held, að hann telji ekki brýna þörf á breytingu á lögum þessum að sinni. Hann vill láta athuga alla löggjöfina í heild sinni. En meiri hl. getur ekki fallist á þessa röksemdafærslu hans, heldur telur þessa breytingu nauðsynlega, til að bæta úr mesta ágallanum, sem er á gildandi lögum um þessi efni.

Þá hefi jeg ekki minst á smábreytingar, sem í frv. eru, svo sem að fyrir orðið „amtmaður“ komi atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið. Slíkar breytingar eru sjálfsagðar, eftir því, hvernig okkar málum er skipað nú.