05.03.1928
Efri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

53. mál, friðun á laxi

Jónas Kristjánsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, sem er í því fólginn, að jeg tel breytingu þessa á núgildandi laxveiðalöggjöf ekki nauðsynlega. Mjer finst hún eins og ljeleg bót á gamalt fat. Jeg fæ nefnil. ekki sjeð, að það taki því, að fara að samþykkja þessa breytingu nú, þar sem það er vitanlegt, að á næsta þingi kemur fram frumv. um gagngerða breytingu á þessari löggjöf. En til þess verður að fara fram gagngerð rannsókn á veiðivötnum um það, hvaða veiðiaðferðir sjeu heppilegastar, hvaða aðferðir megi nota í hverju vatnsfalli fyrir sig. Því að í sumum ám t. d. má ekki nota vissar veiðiaðferðir; sumar ár eru svo litlar, að þar má aðeins nota stangaveiði. Það þarf því sjerstaka rannsókn á hverju veiðvatni og á fyrir sig, og það tel jeg, að þessi fiskiræktarfjelög mundu gera.

Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji standa í vegi fyrir þeim breytingum, sem hjer á að gera, en jeg vildi heldur, að beðið væri, þangað til hægt væri að setja lög, sem gætu enst betur en ætla má að þessi lög entust. Fiskigangur í vötn og ár er minni en vera ætti og hægt væri, ef við færum að dæmi annara þjóða og tækjum upp laxaklak og skynsamlegar veiðiaðferðir. En það tvent verður altaf að fylgja hvað öðru.

— Þetta mál er mikið nauðsynjamál, og jeg get greitt þeim breytingum, sem hjer er farið fram á, atkv. mitt, með þeirri von, að þær breytingar verði ekki til þess að tefja fyrir fullkomnum framkvæmdum í þá átt að endurskoða og bæta löggjöfina um þessi efni.