10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1929

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætla ekki að fara að andmæla hv. frsm., þótt hann hafi ekki getað aðhylst þær brtt., er jeg hefi borið fram, og mun því ekki fara fleiri orðum um það. En jeg vildi leiðrjetta misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf. um till. mína o. fl. um styrk til Páls á Ásólfsstöðum. Hv. þm. bar þetta saman við heimili á fjallajörð í Borgarfirði, sem jeg þekki vel, sem þyrfti að taka, á móti gestum. Jeg veit nú, að þetta er satt, og þyrfti sjálfsagt að rjetta þessum bónda hjálparhönd, svo hann geti tekið á móti gestum. En samt sem áður er umferð miklu minni þarna en í Þjórsárdal. Að vísu er sú umferð mest á sumrin, en eigi að síður koma menn oft hraktir og kaldir úr þessum ferðalögum, og er þá ekki nema á þennan eina bæ að flýja, Ásólfsstaði. Það má nærri geta, hversu þægilegt það er fyrir húsráðendur, sem eru afargestrisnir, að eiga að taka á móti slíkum hópum og hafa ekki nema þröng og ófullkomin húsakynni. Að vísu fer það svo, að gestunum líður þarna framar öllum vonum, vegna hinnar miklu alúðar, sem í það er lögð að láta þeim líða sem best. En nærri má geta, hvort bóndinn, sem er höfðingi í lund, finnur ekki til þess, að geta ekki veitt gestunum þau þægindi, er hann mundi helst kjósa. En slíkt er ekki hægt í litlum og ljelegum húsakynnum.

Eins og jeg tók áður fram, er þarna stöðug umferð, og ekki hvað síst af útlendingum, sem eru að skoða landið og kynna sjer sögu þess og eiga leið um Þjórsárdal. Er ekki vansalaust fyrir land og þjóð, að ekki sje hægt að taka sæmilega á móti þeim á þeim stöðum, sem eru neyddir til að taka á móti þeim. Vona jeg því, að þingið sjái sóma sinn í því að veita þessa litlu fjárhæð og að hv. þm. Borgf. og aðrir hv. þdm. sannfærist um það, að hjer er ekki verið að skapa neitt fordæmi, því óvíða mun standa líkt á og á þessum stað.