13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (1849)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að undirstrika tvö atriði í ræðu hv. flm., vegna fyrirspurna, er hv. 5. landsk. beindi til mín um það, hvort mál þetta hefði verið borið undir stjórn Landsbankans eða bankaráð hans. Eins og hv. aðalflm. tók greinilega fram, þá er þetta frv. borið fram vegna nauðsynja lands og sjávarbænda, en ekki eftir ósk Landsbankans. Jeg sá ekki, að nein ástæða væri til að bera þetta frv. undir stjórn eða bankaráð Landsbankans á þessu stigi málsins, einkum þegar hjer er aðeins um heimildarlög að ræða. En jeg tel víst, að bæði stjórn og bankaráð Landsbankans telji sjer skylt að gera sitt til, að bætt verði úr þessari brýnu þörf. Ber jeg engan kvíðboga fyrir því, að undirtektir þeirra verði á annan veg.