12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Brtt. nefndarinnar við þennan kafla fjárlaganna eru ekki margar og eru því fljótskýrðar.

Fyrst er þá XXXI. brtt. á þskj. 435, um að hækka tillagið til unglingaskólanna. Er þetta gert að bón fræðslumálastjóra. Telur hann þurfa að bæta við upphæðina, ef unglingaskólarnir eigi að geta notið þess styrks, er ákveðið hefir verið, að þeir fengju. Hefir nefndin fallist á það.

XXXV. brtt. á þskj. 435 er um það, að hækkaður verði styrkur til kvenfjelagsins Óskar. Hefir kvenfjelag þetta haldið uppi verklegum húsmæðraskóla síðan 1910. Hefir skólanum verið haldið uppi í 4 mánuði á hverjum vetri, kenslugjald hefir verið 75 kr. og skólinn verið sóttur frá Steingrímsfirði til Stykkishólms. Síðastliðinn vetur voru þar 24 nemendur. Skólinn hefir notið 3500 kr. styrks frá því opinbera, en 6500 kr. frá fjelaginu. Nefndin hefir fallist á, að það væri sanngjarnt að hækka styrkinn.

Því næst er XXXIX. brtt., þar sem nefndin leggur til, að veitt verði fje nokkurt til umbóta á Hólakirkju. Kirkjubyggingin er merkileg og forn, bygð árið 1756, og er af sumum talin ein hin merkilegasta bygging þessa lands. En nú hefir hún gengið úr sjer, og ýmsar breytingar, sem gerðar hafa verið á henni, hafa valdið skemdum á innra útliti hennar. Nú hefir sú stefna verið tekin upp að endurbæta hana og breyta henni á þann hátt, að hún komist aftur í sitt forna horf. Nefndin lítur svo á, að þetta sje stórþörf ráðstöfun og hefir fallist á að veita 1000 kr. til þessa verks.

Þá leggur nefndin til í XLI. brtt. að veita 1200 kr. til Þorkels Jóhannessonar. Þorkell er að undirbúa rit mikið um atvinnusögu Íslendinga. Í hana vantar ennþá mikilsverðan kafla, en heimilda til hans hefir Þorkell hugsað sjer að safna fyrir þetta fje. Hann ætlar að ferðast um landið, safna örnefnum og skoða rústir og lesa úr þessu sögu atvinnuvega vorra til sjós og sveita. Af þessum brunni má vafalaust ausa miklum fróðleik viðvíkjandi íslenskri atvinnusögu, landbúnaðar-, fiskiveiða- og verslunarsögu. En margt af þessum fróðleik er hætt við að glatist, ef ekki er undinn bráður bugur að rannsóknum. Örnefni gleymast, rústir eru jafnaðar við jörðu. Þorkell fjekk dálítinn styrk síðastl. ár og starfaði í sumar í Þingeyjarsýslu. Gerir hann ráð fyrir að geta lokið starfinu á 10–12 árum. Hann hefir lofað að útvega viðbótarstyrk annarsstaðar að, ef ríkið veitir þennan. –Nefndin lítur svo á, að þetta sje mjög þarft verk og telur nauðsynlegt að sporna við, að örnefni og fornarmenjar falli með öllu í gleymsku, en telur hinsvegar ekki fært að rita um atvinnulíf þjóðarinnar án þess að slíkum gögnum sje safnað.

Þá er það XLVIII. brtt. Nefndin leggur til, að veittar sjeu 2000 kr. til dr. Jóns Stefánssonar til mynda í Íslandssögu hans. Dr. Jón hefir undanfarin ár verið að semja Íslandssögu á ensku. Verður hún stærri en nokkur sú Íslandssaga, sem út hefir verið gefin. Aðaláhersluna leggur hann á að draga fram þá þætti sögunnar, sem snerta viðskifti Íslendinga og Englendinga. Nefndin telur viðeigandi að veita þennan styrk til að koma í bókina litmyndum nokkrum íslenskum, sem geymdar eru í konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og eru frá 14. öld. Eru þær af búningum, vopnum og ýmsu öðru og gefa góða hugmynd um líf manna á þeim tímum. Þær eru prýðilega gerðar, teiknaðar af Magnúsi Þórhallssyni í Víðidalstungu. Tvívegis áður hefir verið veitt fje til þessarar sögu. Er áreiðanlega ekki of miklu til kostað, því það getur komið landinu að miklu liði, að stór og voldug þjóð, eins og Englendingar, fái þannig tækifæri til að kynnast sögu þess. En nafn dr. Jons er full trygging fyrir því, að verkið verði svo úr garði gert, að verðlaunavert sje. Þess má og geta, að dr. Páll Eggert Ólason mælir mjög með þessari styrkbeiðni.

Í LVIII. brtt. fer nefndin fram á, að veittur sje 1200 króna styrkur til dýralæknisnáms. Það hefir ekki blásið byrlega fyrir dýralæknunum hjer á þessu þingi; en það má gera ráð fyrir, að þó fallið verði frá að hafa jafnmarga fasta dýralækna og nú eru, þá aukist þó þörf fyrir þá frá því, sem er. Nú eru einungis 4 lærðir dýralæknar hjer á landi, og þar af eru 2 aldraðir. Þurfum við því að vera viðbúnir, ef einhver fjelli frá.

Þá er LX. brtt., og er fyrri liður hennar um styrkveitingu til Sláturfjelags Suðurlands, til að reisa niðursuðuverksmiðju, og ætla jeg til hægðarauka að taka með LXXXI. brtt., um heimild til að lána sama fyrirtæki 70 þús. kr. í sama tilgangi. Fjelagið hefir um nokkurt skeið starfað að niðursuðu og hefir fengið mikla reynslu í því efni. Þeir, sem að fjelaginu standa, eru ekki í vafa um, að niðursuða eigi mikla framtíð fyrir sjer. Það er afar mikilsvert framfaraspor, ef hægt er að gera lakasta hluta kjötsins að góðri verslunarvöru með þessu móti. En ýmislegt úrgangskjöt má nota í kæfu og líka t. d. kjöt af eldra fje, sjóða niður og selja sem kjöt. Því meir sem salan á frosnu kjöti eykst, eftir því verður meiri nauðsyn á að koma slíku kjöti í verð, því eins og kunnugt er, þá selst ekki í Englandi annað en úrvalskjöt frosið. Auk kjötsins hefir verið reynd niðursuða á fiski, laxi og rjúpu. Má einkanlega gera sjer miklar vonir um rjúpuna. Þessi ágæta vara hefir hingað til verið litlu betri verslunarvara en síldin. Með það tvent er eins háttað. Það berst svo mikið á markaðinn í einu, að því verður ekki undan komið. En með því að sjóða hana niður væri hægt að dreifa markaðinum, svo að hún berist ekki öll að í einu; hækkaði það verð hennar og yrði að því mikill tekjuauki. — Sláturfjelagið hefir orðið brautryðjandi í kjötsölunni hjer á Suðurlandi. Það hefir einu sinni áður fengið lán úr viðlagasjóði, 40 þús. kr., og er það nú að fullu borgað. Fyrir fáum árum var stjórninni veitt heimild til að veita því viðlagasjóðslán til að koma upp sútunarverksmiðju. Þetta var aldrei notað, því að þegar farið var að hugsa málið betur, sá fjelagið, að þar var ekki um svo arðvænlegt fyrirtæki að ræða sem búist var við í fyrstu. Sýnir það ljóst, að forgöngumenn fjelagsins flasa ekki að neinu. — Fjelagið fór fram á hærri styrk, en nefndinni þótti ekki annað fært en skera hann niður um helming. Lánsupphæðina hefir hún aftur á móti látið standa eins og fjelagið fór fram á.

Í síðari till. undir sama tölul. leggur nefndin til, að styrkurinn til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga sje hækkaður úr 4700 kr. upp í 6000 kr. Fjelag þetta starfar að endurlífgun heimilisiðnaðar og vinnur að því af áhuga og krafti. Nefndin hefir átt kost á að kynnast nokkuð starfi fjelagsins, með því að athuga það, sem unnið hefir verið á námsskeiði, sem haldið hefir verið í vetur. Sá hún, að þar hefir verið myndarlega að verið. — Þess skal getið, að beiðni kom frá Hvítárbakkaskóla um styrk í sama skyni. En nefndinni kom saman um að hafa allan styrkinn á sama lið, og getur þá skólinn fengið styrk af því fje, er fjelagið úthlutar.

LXX. brtt., fyrri liður, er um styrkveitingu til innflutnings sauðnauta. Sauðnaut eru okkur að vísu óþekt, en þeir, sem hafa kynt sjer eðli þeirra og lífsskilyrði, gera sjer vonir um, að gagn mikið verði af þeim hjer. Það eru harðgerðar skepnur, sem lifa norður í Grænlandsóbygðum. Vil jeg benda á, að öll okkar húsdýr, hestar, kýr og sauðfjenaður, er kynjað úr suðlægum löndum og heitum. En sauðnautin hafa alist upp og vanist við erfið lífskjör; yrðu þau því ljett á fóðrum. Þau eru að stærð mitt á milli nauta og sauða, spök og eru líkur til, að þau mundu verða mjög meðfærileg. Vigfús Sigurðsson Grænlandsfari hefir sótt um styrk til að flytja þau hingað inn. Nefndin hefir litið svo á, að gera beri einhverjar ráðstafanir til að flytja þau inn, en leggur það hinsvegar á vald stj., á hvaða hátt það verði gert, hvort það verði gert með því að senda menn til að sækja þau, eða þau verði keypt.

Seinni liður þessarar brtt. fer fram á, að veittur verði styrkur til flugnáms. Nú hefir Eggert Vilhjálmsson Briem lokið fyrrihlutaprófi í fluglist. Langar hann til að fullnuma sig enn frekar og taka seinni hlutann líka. En það er dýrt nám; kostar líklega um 10 þús. kr. Nefndin sá sjer ekki fært að mæla með svo háum styrk, en leggur til, að veittar verði 5000 kr. Það er ekki vafi á, að flugferðir komast á hjer á landi innan skamms. Er því mikilsvert fyrir okkur að fara að undirbúa okkur, og virðist sjálfsagt að styðja að því, að íslenskir menn nemi fluglist.

Í LXXVII. brtt. fer nefndin fram á að bæta tveim ljósmæðrum við þann flokk, sem í 18. gr. er talinn.

Þá er það LXXXIX. brtt. Í 23. gr. frv. er heimild til að greiða Sambandi íslenskra samvinnufjelaga halla þann, er verða kann á sölu frysts kjöts. Nefndin leggur það til, að einungis verði greiddur helmingur hallans. Þessi kjötsala er nú komin í það gott horf, að lítil hætta er á, að halli verði nokkur að ráði. Telur nefndin því óhætt að draga úr styrknum.

Í 2. lið a. í sömu brtt. er farið fram á, að stjórnin fái heimild til að ábyrgjast 250 þús. kr. lán til hafnarbryggju á Siglufirði. Þetta er eiginlega einungis tilfærsla. Í hafnarlögunum 1914 er Siglufirði veitt ábyrgð fyrir 150 þús. kr. láni og í fjárlögum árið 1927 120 þús. kr. lán úr viðlagasjóði. En eins og allir vita, þá hefir verið lítið fje til í viðlagasjóði, og varð það því að samkomulagi að fella lánið niður, en auka ábyrgðarheimildina. Nefndin hefir fallist á þetta og telur sjálfsagt að taka þessu boði.

Í b.-liðnum leggur nefndin til; að stjórninni heimilist að kaupa jörðina Bakkasel í Öxnadal. Bakkasel stendur uppi í óbygðum og er nauðsynlegt að halda þar bygð við lýði vegna póstferða. Getur það riðið á lífi manna. Nú eru líkur til, að bygð leggist þar niður, ef ekki eru gerðar skjótar ráðstafanir. Akrahreppur á nú jörðina; keypti hana til að ná í afrjettarland. Undanfarið hafa verið veittar 700 kr. til að halda þar uppi bygð, og hefir þó gengið illa að fá menn til að búa þar. En nú eru hús jarðarinnar komin að falli, og er ekki hægt að tryggja þar bygð áfram, nema hið opinbera byggi upp húsin. Fullyrða má, að verð jarðarinnar verði það lágt, að ekki verði veruleg útgjöld að þessu. Nefndin hefir ekki getað sjeð annað en að þetta sje alveg hliðstætt Fornahvammskaupunum og að það verði ekki komist hjá þessu.

Þá hefi jeg farið nokkrum orðum um allar brtt. nefndarinnar við þennan kafla fjárlaganna. En sjálfur á jeg og nokkrar brtt., sem jeg skal mæla nokkuð fyrir.

LXXX. brtt. á þskj. 435 er viðkomandi tryggingum „Mjallar“. Svo hagar til, að í Mýra- og Borgarfjarðarsýslum eru 18 hreppar. En einungis 3–4 þeirra geta notið viðskifta við Mjöll. Þótt fyrirtækið sje þarft og fullkomlega nauðsynlegt að halda því uppi, þá er ekki víst, hvort samþykki beggja sýslunefnda fæst til þessarar ábyrgðar. Er afleitt að láta málið stranda á því, ef fengist gæti önnur ábyrgð jafngóð. Það gæti staðið á einu atkv. í annari sýslunefndinni. Í sýslunefndum er oft reipdráttur og metningur um mál, sem eru minni en þetta. En hjer á hv. Alþingi verður að líta stærri augum á málin og bregða ekki fæti fyrir þjóðþrifafyrirtæki að ástæðulausu. Vona jeg, að hv. deild taki þessa brtt. til greina í því trausti, að stjórnin flani ekki að því að veita lánið nema gegn fullkominni tryggingu.

Þá á jeg ásamt háttv. þm. Borgf. XXXIII. brtt. á sama þskj., um að veita 1000 kr. til aukningar á bókasafni Hvítárbakkaskóla. Er það stórþörf fjárveiting. Hverjum skóla er það nauðsynlegt að hafa gott bókasafn til afnota, og ekki síst þeim skólum, þar sem fræðslunni er svo hagað, að sjálfsnám er aðallega stundað, svo sem er nú á Hvítárbakka.

Að XLII. brtt. á þskj. 435 er jeg aðalflm., en þrír aðrir hv. þm. hafa og gerst meðflm. Er hún um að veita Guðmundi Kamban 2400 kr. styrk. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um Kamban; hann er svo kunnur, ekki einungis hjer, heldur og um allan bókmentaheim Norðurlanda. Hann hefir brotist áfram af dugnaði og þeim hæfileikum, að nú er hann kominn í sess helstu rithöfunda Norðurlanda. Hann hefir ritað mörg verk, sögur og sjónleika aðallega. Hafa leikrit hans fengið hina bestu dóma erlendra listdómenda og verið sýnd í öllum helstu leikhúsum Norðurlanda. Kamban er þegar búinn að ná viðurkenningu, og það er ekki lengur þráttað um, að hann er merkilegt skáld. En hann hefir ekki fengið viðurkenningu frá fósturjörðinni. Hann hefir aldrei fengið listamannastyrk, þótt fjöldi manna, sem minna voru verðir, hafi fengið hann. Nú langar hann til að semja skáldrit frá 14. öld. En til þess þarf hann að afla sjer heimilda. Þarf hann að koma upp til þess, bæði til að lesa hjer í bókasöfnum og eins til að rannsaka sögustaði. Hann hefir nýlega orðið fyrir áfalli nokkru, heilsubilun, og hlotið við það kostnað mikinn. Og ef Alþingi verður ekki við þessari styrkbeiðni, mun hann ekki geta framkvæmt verkið. Jeg álít, að nú sje fyllilega tími til kominn, að hann fái viðurkenningu frá fósturjörðinni, en það verður ekki betur gert en með því að veita þennan styrk umyrðalaust. Jeg get ímyndað mjer, að sumum hv. þm. sárni það, að fara að samþykkja þetta á sama tíma og verið er að skera niður verklegar framkvæmdir. En jeg held líka, að mönnum sje holt að minnast þess, að maðurinn lifir ekki af einu saman brauði, og það hefir verið styrkur þessarar þjóðar, að hún hefir getað litið upp úr askinum við og við. Og í þessu sambandi vil jeg minna á það, að naumast mundu Norðmenn á sínum tíma hafa getað betur varið fje en til þess að styrkja þá Ibsen og Björnson, og fátt orðið þeim meiri álitsauki en verk þessara manna. En þótt jeg ætli ekki að fara að gera neinn samanburð á Kamban og þeim, þá er hjer þó um mann að ræða, sem mjög hefir orðið til sóma bókmentum þessarar þjóðar og haldið nafni þessa lands á lofti meðal erlendra þjóða. Og það er ilt, ef í viðbót við þennan sjúkleika hans verður nú sparkað í hann hjeðan að heiman, því auk þess, sem það mundi gera þetta verk, sem hann hefir með höndum, óframkvæmanlegt, þá mundi það og brjóta niður kjark hans og vonir, þegar hann fyndi slíkan kulda leggja móti sjer hjeðan að heiman, einmitt þegar honum ríður mest á að fá hlýjar kveðjur frá ættjörðu sinni.