28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Ingvar Pálmason:

Þess var getið af hv. frsm. 1. minni hl. (JÞ), að ekkert nál. lægi fyrir frá okkur Framsóknarmönnum í nefndinni. Þetta er rjett. Mjer skildist á hv. frsm., sem honum þætti þetta miður farið, fyrst af því, að það væri óvanalegt, að nefndarhlutar skiluðu ekki áliti, og í öðru lagi vegna þess, að málið ætti skilið að fá umsögn sem flestra manna. Það má vel vera rjett, þótt það sje hinsvegar ekkert einsdæmi í þingsögunni, að nefndarhlutar skili ekki áliti um ýms mál. En orsökin til þess, að ekkert nál. liggur fyrir frá okkur hv. 1. þm. Eyf. er sú, að eftir að nál. hv. 1. minni hl. kom fram, töldum við ekki ástæðu að semja sjerstakt nál. Þar er sem sje tekið fram það, sem við byggjum okkar niðurstöður á, en það er umsögn Landsbankastjórnarinnar og eftirlitsmannsins með bönkum og sparisjóðum. Og þó að við kæmumst að annari niðurstöðu, þá eru forsendurnar þær sömu. Við mundum hafa látið prenta sem þingskjöl einnig álit þessara manna, og mjer finst skjalapartur Alþt. nógu langur, þó ekki sje prentað í tveim álitum það sama.

Jeg skal þá víkja að málinu sjálfu. Eins og minst hefir verið á, telur stjórn Landsbankans sig undan því, að þessi kvöð verði lögð á Landsbankann. Við teljum litlar líkur til, að þetta reynist vel, úr því að bankastjórnin telur ekki viðeigandi, að bankinn taki að sjer útvegun þessara lána, og sjáum við þá ekki, að mikils árangurs sje að vænta. Ennfremur viðurkennum við, að umsögn Jakobs Möllers sje á rökum bygð, og þó að hv. minni hl. reyni að bæta úr þeim anmörkum, sem hann bendir á, þá sje jeg ekki, að mikil von sje um, að þessi starfsemi beri tilætlaðan árangur, enda fanst mjer hv. frsm. (JÞ) líta á þetta sem tilraun. Hann tók það fram, að fyrir honum væri aðalatriðið að fá reynslu um þetta. Jeg lít svo á, að þannig sje til málsins stofnað, að ekki sje fært að afgreiða það að svo stöddu. Auk þess sem jeg hefi þegar talið, lít jeg svo á, að þetta fyrirkomulag verði bæði þunglamalegt og dýrt. Jeg held, að ekki verði hjá því komist, að þessi lán verði mjög dýr. Þó að gert sje ráð fyrir, að lán fáist í útlöndum, þá hygg jeg, að vextir af því verði varla lægri en 5%, að minsta kosti ef afföll eru tekin með. Jeg geri ekki ráð fyrir, að betri vaxtakjör fáist. Það er gert ráð fyrir, að sparisjóðirnir fái borgun fyrir sína fyrirhöfn og áhættu, og mun hún ekki geta orðið minni en 1%. Jeg hygg líka, að sparisjóðirnir muni ekki nota þetta mikið, ef þeir hafa enga hagnaðarvon af því. Enda er viðurkent af hv. 3. landsk., að þeirri starfsemi fylgi áhætta. Þá er þriðji aðilinn, sem sje lánsfjelög hreppanna. Jeg býst við, að þau leggi vexti á lánin, sem hver lántakandi borgi í varasjóð, varla minna en 1%, og eru þá vexirnir alls orðnir 7%. Þá er sú stofnun, sem útvegar lánin. Þó að ekki sje ætlast til að hún hagnist neitt á því, þá verður hún þó altaf að tryggja sig gegn tapi. Jeg sje því ekki betur en að hún verði að leggja eitthvað á, til þess að hafa vexti af fjenu frá því að lán er tekið erlendis og þangað til það er notað, og svo þangað til hægt er að greiða það aftur. Það verður ómögulegt að komast hjá einhverju vaxtatapi, þar sem milliliðirnir eru svona margir. Ef Landsbankinn hinsvegar sæi sjer fært að lána sparisjóðum út um land til þessarar starfsemi með sæmilegum kjörum, þá væri öðru máli að gegna. — Við játum fyllilega, að mjög erfitt sje um atvinnurekstrarlán handa hinum minni atvinnurekendum, bæði til lands og sjávar, og að brýn þörf sje á að bæta úr því. En þó að mikilsvert sje að útvega þeim fje, þá ríður þó ekki síður á hinu, að lánskjörin sjeu við þeirra hæfi. Það er ekki það allra versta, hvað lítinn kost við eigum á að fá fje til atvinnurekstrar; hitt er miklu verra, hvað vaxtakjörin eru erfið.

Þó að við nú játum, að lánsþörfin sje mikil, þá lítum við svo á, að málið sje ekki svo vel undirbúið, að hægt sje að láta það ganga fram nú. Hinsvegar álítum við, að þetta sje verkefni, sem þingið eigi að glíma við og leysa á sem bestan hátt, og tel jeg, að allir, sem unnið hafa að málinu, eigi þakkir skilið fyrir till. sínar og umbótaviðleitni. Það, sem á milli ber, er aðeins það, hvaða leið sje heppilegust til úrlausnar í málinu.

Áður en jeg sest, vil jeg víkja nokkuð að öðru í þessu sambandi, og það er, hvernig veltufje þjóðarinnar er notað og hvernig það skiftist á milli atvinnuveganna. Jeg hefi heyrt talað um, að sparifje þjóðarinnar muni vera um 50 miljónir króna. Jeg hygg nú, að það muni vera miklu meira, og gæti jeg hugsað, að það væri alt upp undir 100 miljónir. Hvar er nú þetta sparifje niður komið? Sumt er í sparisjóðunum, sumt gengur manna á milli, sumt í verðbrjefum o. s. frv. Nokkur hluti þess stendur í hlutabrjefum í ýmsum fyrirtækjum. Jeg minnist þess t. d., að einu sinni, þegar jeg var staddur á Eskifirði, voru sendar þaðan 40 þús. kr. í hlutafjelag hjer í Reykjavík. Það var eingöngu sparifje nokkurra hjeraðsmanna þar eystra. Jeg skal ekkert um það segja, hversu vel þessu fje hefir verið varið, en jeg tel, að ef rjett væri farið með sparifje landsmanna yfirleitt, og því veitt þangað, sem þörfin er mest og jafnframt tryggast um bítið, þá verði það til mikilla bóta. Þetta ætti að athuga vel, bæði það, hvernig veltufje þjóðarinnar skiftist milli atvinnuveganna, og svo hitt, hvernig sparifjáreigendum væri hyggilegast og tryggast að ávaxta fje sitt. — Það má, ef til vill, segja að þessi hluti ræðu minnar sje utan við efnið, en jeg lít svo á, að þetta sje nátengt hvað öðru. Að endingu skal jeg taka það fram, að niðurstaða okkar, hv. 1. þm. Eyf. og mín, var sú, að eins og málið horfir við nú, teljum við rjettast, að málinu sje vísað til stjórnarinnar til athugunar og frekari undirbúnings. Fyrir þinginu liggja nú ýms mál, sem sýnilega verða ekki útrædd á þessu þingi og verða að bíða næsta þings. Við teljum það nauðsynlegt þessu máli, að það fái rækilega rannsókn milli þinga, og er það því í stuttu máli till. okkar, að því verði vísað til stjórnarinnar.