28.03.1928
Efri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (1857)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Jónas Kristjánsson:

Það lítur út fyrir, að þetta mál ætli að eiga nokkuð erfitt uppdráttar hjer í deildinni, hvort sem það kemst lengra eða ekki. Jeg fyrir mitt leyti get ekki skilið í þeim mótbárum, sem færðar eru gegn því, og mjer finnast þær, satt að segja, lítils virði.

Fyrsta mótbáran er sú, að seðlabanki okkar vilji ekki eiga neitt við þetta, en það finst mjer, satt að segja, ótrúlegt, að nokkur banki skuli koma með þá þrotaauglýsingu á sjálfum sjer, að hann geti ekki útvegað fje til annars eins nauðsynjamáls og þetta er.

Önnur mótbáran gegn því er, að lánin verði dýr, en það eru öll lán dýr nú. Hvernig eru lánin, sem bændur landsins verða að sæta hjá kaupfjelögunum, eða kaupfjelögin hjá Sambandi ísl. samvinnufjelaga? Jeg held, að þar sje ekki um nein kostakjör að ræða, því að jeg veit ekki betur en að bændur verði að greiða 8% af þeim, svo að það er ekki að fljúga úr neinu mjúku hreiðri, í því efni.

Það, sem skapaði þetta frv., var hin mikla nauðsyn til þess að reyna að losna við vöruskiftaverslunina, en það er hið mikla þjóðarböl, sem við eigum við að búa, og þykir mjer undarlegt, ef bændur landsins finna ekki, hvar skórinn kreppir að. Ríkir bændur finna kanske lítið til þess, en hinir fátækari bændur hljóta þá að finna ennþá meira til þess.

Það hefir fyr verið reynt að finna ráð til að fyrirbyggja þessa skuldaverslun, og það var fyrst og fremst tilgangurinn með myndun kaupfjelaganna. En hvernig er nú komið með það takmark, sem þau settu sjer upphaflega? Það er meinið, að þau hafa gleymt sínu upphaflega takmarki og eru komin á aðrar slóðir. Takmark þeirra var að hindra skuldaverslunina og að fá vörurnar sem ódýrastar. En nú lítur helst út fyrir, að samkeppnin á milli kaupmannanna og fjelaganna sje farin að ganga út á það, hvorir geti nú veitt lengri greiðslufrest, og virðist þetta nú vera orðið alveg öfugt við það, sent áður var, og er það illa farið. En svo þegar þessi tilraun er gerð til að reyna að leiðbeina kaupfjelögunum til að sjá rjetta markið, þá koma bændur hjer á þingi og segja, að þetta megi ekki gera, og svo lítur helst út fyrir, að frv. verði látið stranda hjer óafgreitt. Þess vegna vil jeg biðja hamingjuna að hjálpa þessari þjóð, ef svona á að halda áfram, því að það verður sennilega ekki hrakið, að stærsta meinsemdin, mesta þjóðarbölið okkar Íslendinga, er vöruskiftaverslunin og þar af leiðandi lánsverslun og töp, sem henni fylgja. Ef ætti að reikna það sem hundraðsgjald af verslun landsins, þá er jeg viss um, að það yrði afskaplega hátt. Þetta þarf að laga, og einasta ráðið til þess er peningaverslun, það ráðið, að við reynum að ganga í spor annara þjóða og reynum að versla þannig, að hönd selji hendi. Það er enginn efi á því, að þegar menn versla fyrir peninga, þá hugsa menn sig betur um, áður en þeir kaupa, eru vandaðri í vali og hugsa frekar um það, hvers þeir geti komist af án, og þetta skapar varúðina. Aftur gerir skuldaverslunin menn andvaralausa, og menn missa þannig sjálfstæði sitt. En það er viðurkent, að þeir, sem eru ósjálfstæðir efnalega, verða líka ósjálfstæðir andlega. Þetta er reyslan fyrir löngu búin að sýna, og það er einmitt vöruskifta- og lánsverslunin, sem hefir haldið þjóðinni okkar í kútnum, af því að við kunnum ekki fótum okkar forráð, þar sem um fjármál er að ræða. En það, að menn geti verslað skuldlaust og viti, hvað þeir mega leyfa sjer, það er ekki aðeins besta ráðið til efnalegs sjálfstæðis, heldur líka til andlegs sjálfstæðis, og því verður ekki neitað, að framfarir í andlegu sjálfstæði eru ekki miklar hjá okkur. Jeg held, að þar sje öllu heldur um afturför að ræða, og jeg hygg, að núverandi verslunarfyrirkomulag sje heldur til að spilla í þeim efnum.

Hjer er um það að ræða, hvort á að reyna að lækna þá meinsemd, sem knýr okkur á knje, og þetta ráð, sem hjer er verið að tala um, er lagt á til þess að bændur landsins geti stundað atvinnu sína og skapað sjer verslunarfrelsi, og jeg sje ekki ,betur en að þeir, sem berjast á móti þessu máli, sjeu að berjast á móti efnalegu og andlegu frelsi þjóðarinnar.