03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hv. 5. landsk. hefir í fyrri umr. um þetta mál viðurkent það sent sína skoðun, að rjett væri, að Landsbanki Íslands hefði forgöngu um útvegun þessa lánsfjár, og að það væri hentugt, m. a. vegna þeirra viðskifta, sem hvort sem er eru á milli Landsbankans og erlendra peningastofnana á aðra hliðina, og Landsbankans og sparisjóðanna í landinu á hina hliðina. Jeg verð að segja það, að mjer þykir hv. þm. nú hneigja sig fulldjúpt fyrir stjórn Landsbankans, þegar hann nú vill vísa þessu máli frá, vegna þess að bankastjórarnir eru honum ekki sammála um þetta atriði. Jeg fyrir mitt leyti met bankastjóra Landsbankans mikils, en jeg finn þó ekki ástæðu til að verða hv. 5. landsk samferða í þessari djúpu auðmýkt hans fyrir þeim.

Það er í raun og veru fátt um þetta að segja, annað en að benda á, að það er ekki rjett, sem hv. þm. hjelt fram, að það væri engin von um framkvæmdir í þessu máli, af því að bankastjórar Landsbankans hafi nú lagt á móti því, að þetta verkefni væri nú falið bankanum. Fyrst og fremst eru það nú ekki framkvæmdarstjórar Landsbankans, eða að minsta kosti ekki þeir einir, sem ráða því, hvort bankinn á að taka upp nýja starfsemi eða færa út starfsemi sína. Ákvörðun um þetta hvílir fyrst og fremst á bankaráðinu, og þótt nú liggi fyrir þinginu frv. um breyting á Landsbankalögunum, verður engin breyting í þessu efni. Slík ákvörðun sem þessi getur ekki talist til þeirra daglegu starfa í bankanum, sem bankastjórunum er ætluð, og jeg fyrir mitt leyti er ekki í miklum vafa um það, að eins og málavextir eru, ef lögin fengju afgreiðslu í þinginu, mundi bankaráð Landsbankans alveg fortakslaust sinna þeim. Ef landsstjórnin vildi sinna málinu, þá mundi ekki standa á Landsbankanum til þess, enda væri það svo ástæðulaust að hafa á móti því, vegna þess að í upphafi mundi hjer verða um svo lítið aukin fjárframlög að ræða, að þeirra mundi lítið gæta í allri þeirri upphæð, sem Landsbankinn veitir, og þetta er af því, að það hlýtur á flestum stöðum að taka nokkurn tíma að mynda þau samtök og gera þann undirbúning, sem fram þarf að fara, áður en menn eru tilbúnir að nota sjer lögin. Jeg get þess vegna ekki með nokkru móti kannast við það, að samþykt þessa frv. sje gagnslaus eða barnaleg, eins og hv. þm. orðaði það, eða mundi standa í vegi fyrir því, að nýjar leiðir verði framkvæmdar. Jeg tel það vera öldungis víst, ef þetta frv. nær samþykki, að þá verði úti um sveitir landsins tekið til við að undirbita þann fjelagsskap, sem að þessu á að starfa, og það verður tekið til við að fá stjórnir sparisjóða til að sinna þessu málefni, og peningar verða fyrir hendi hjá Landsbankanum, jafnóðum og eftir þeim verður leitað.

Það verður nú að gæta að því, að þó að bankastjórar Landsbankans, þegar þeir eru spurðir um einhver lagafrumvörp, hafi heldur á móti því, að eitthvað verði lögtekið, þá er það alt annað, ef menn hugsa sjer, að þeir standi á móti framkvæmdum laganna, þegar búið er að lögleiða slík frv. Jeg get stutt þetta með fordæmi. Á þinginu 1924 voru samþykt lög um búnaðarlánadeild við Landsbankann, og höfðu bankastjórarnir ákaflega mikið á móti því. Þetta varð samt að lögum, og þegar þetta átti að koma til framkvæmda, töldu bankastjórarnir ákaflega mikil tormerki á því; þeim var veittur þriggja mánaða frestur, þar til þær ástæður voru breyttar, og síðan var þetta framkvæmt, eins og bankareikningarnir bera með sjer. Svona hlýtur það að ganga með hverja slíka löggjöf, að hún kemst náttúrlega til framkvæmda, þó að þeir starfsmenn, sem að einhverju leyti eiga að sjá um framkvæmdirnar, hefðu heldur kosið að sjá hana ógerða. Jeg get þess vegna ekki talið, að háttv. 5. landsk. hafi tekist á nokkurn hátt að sýna fram á, að rjettmætt sje að stöðva meðferð málsins nú á þinginu.