03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (1866)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg get minst á annað atriði, sem gerir framkvæmd málsins örðugri, heldur en við í fjhn. fyrst bjuggumst við og heldur en kom fram undir umræðum málsins áður, og það er, að bankastjórn Landsbankans telur alveg óframkvæmanlegt að nota ameríska lánið í þessu skyni. Það er af því, að það lán verður að greiðast upp að fullu á hverju ári, og ef lántakendur ekki geta greitt þau upp, þá verða af þeim framlengingarvextir, sem gera lánin afardýr, en það vitum við allir, sem höfum athugað þetta frv. og þekkjum til viðskifta meðal manna, að það verður altaf talsvert mikið af þessum lánum, sem ekki kemur aftur á rjettum gjalddaga, því að það kemur svo oft hjer misæri, bregst afli, bregst heyskapur og þar af leiðandi bitskapurinn, svo að það hlýtur að veiða svo, að eitthvað standi fast, þó að það væri upphaflega aðeins tekið sem rekstrarlán. Þetta lán er því ekki hægt að nota, og þá er um það að ræða að taka til þess ný lán, og jeg hefi ekki heyrt stjórnina segja neitt um það, hvort hún mundi vera fús til að útvega neitt slíkt lán eða til að ganga í ábyrgð fyrir því, en þetta þarf alt að vera fyrir hendi. Landsbankinn þarf að vilja taka þetta að sjer, og stjórnin þarf að ganga í ábyrgð fyrir láninu, til þess að þetta komist í framkvæmd. Þess vegna álit jeg, eins og málið stendur nú, og sjerstaklega fyrir mótstöðu stjórnar Landsbankans, að lítil von sje um, að nokkuð verði gert í málinu, þó að það verði samþykt á þinginu. Það þýðir ekkert í þessu sambandi að tala um djúpa auðmýkt og að lagst sje lágt fyrir stjórn Landsbankans, ef menn sjá, að þeir, sem eiga að hafa þessa lánsstjórn með höndum, álíta málið óframkvæmanlegt. Það, sem hv. þm. kallar auðmýkt hjá mjer, kallar hann tilhliðrun hjá sjálfum sjer, því að þegar hv. þm. mintist á búnaðarlánadeildina, þá var það tilhliðrun, ekki auðmýkt, að láta málið bíða í nokkra mánuði, af því bankastjórar Landsbankans lögðu á móti stofnun búnaðarlánadeildarinnar. En hvernig urðu svo framkvæmdirnar? Þannig, að bankinn veitti að vísu örfá lán úr þessari deild, en fyrirkomulaginu var alveg breytt, og gott ef þessi fáu lán úr búnaðarlánadeildinni voru ekki veitt með þeim skilmálum, að þessu væri breytt af stjórninni þá á næsta þingi og sett í nýtt form, enda kom hinn nýi ræktunarsjóður úr þessu, og það hefir þáverandi fjármálaráðherra Jón Þorláksson sjeð, að það var ekki til neins að þröngva því máli fram, sem þeir menn, sem áttu að hafa framkvæmd þess á hendi, settu sig á móti; aðeins var ráðherrann skyldur að segja þinginu þetta, áður en það samþykti lögin. Og ef það hefir aðeins verið tilhliðrun, sent ráðherrann sýndi um búnaðarlánadeildina, þá er óþarft að kalla það auðmýkt, sem fram kemur hjá mjer.

Hv. þm. heldur, að ef þingið aðeins samþykkir þetta frv. í trássi við stjórn Landsbankans, þá muni hún nú samt sem áður taka þetta að sjer, og framkvæmdir muni byrja í málinu. Jeg er ákaflega hræddur um, að lítið verði úr því, en þær framkvæmdir, sem geta orðið án þess að Landsbankinn beiti sjer fyrir þessari lántöku, gætu alveg eins orðið án þess að frv. væri samþykt, eða því skyldu menn ekki úti um sveitir landsins geta myndað fjelög til lántöku, og svo sagt við bankann: Hjer erum við, á bak við okkur eru svo og svo miklar tryggingar, og við viljum gjarnan fá þetta lán handa okkur. Mjer er sagt, að það sje fjelag norður í Skagafirði, sem hafi starfað svona, án þess að nokkur lög hafi staðið á bak við það, og ef eitt fjelag getur starfað þannig, þá geta fleiri gert það. En þótt jeg sje samþykkur hv. þm. um stofnun slíkrar lánsstarfsemi, og að nokkru leyti um tilhögunina, þá get jeg því ekki annað en tekið tillit til þess, sem þeir menn segja, sem á að leggja þetta í hendurnar á, og jeg er jafnvel á móti því, þótt jeg vilji ríkisrekstur á ýmsum sviðum, að þingið skipi fyrir um framkvæmdir í einstökum fyrirtækjum ríkisins. Eins álit jeg ekki heppilegt að fyrirskipa Landsbankanum eitthvað, sem þeir menn, sem starfa eiga að því, leggja eins eindregið á móti eins og þessu. Jeg held, að bankastjórar Landsbankans sjeu allsamhuga um það, að þeir að minsta kosti líta á þetta sem algerlega óframkvæmanlegt fyrir Landsbankann að sinna þessu. Jeg held nú, þó að jeg hafi sagt að jeg álíti, að Landsbankinn eigi að hafa þetta á hendi, vegna þess að jeg álít hann best falinn til þess af því, hve greið peningaskifti hann hefir við útlönd og getur hæglega miðlað fjenu á milli, að ef framkvæmdarstjórn hans ekki vill sinna málinu, og ef landsstjórnin ekki vill koma því áleiðis, þá þýði ekki að samþykkja málið í því skyni, að það komi að gagni. Því er ennfremur yfir lýst af stjórn Landsbankans, og víst óhætt að hafa það eftir, að ógerlegt sje að nota ameríska lánið til þessa, því að það er aðeins talið vera til þess að halda gjaldeyri landsins í lagi, og ef þeir þurfa að opna það, þá skoða þeir það gert í þágu gengismálsins. Það lán vilja þeir helst ekki opna, og telja það aðeins sem öryggisráðstöfun, svo að jeg sje ekki betur en að það bresti talsvert mikið á, að menn geti gert sjer vonir um framkvæmdir í þessu máli, sem jeg þó játa að væri æskilegt.

Jeg vissi ekki betur en að hv. 3. landsk. beitti sjer algerlega á móti því, þegar verið var að tala um það hjer á Alþingi, undir umr. um ræktunarsjóðinn, að fyrirskipa Landsbankanum að kaupa vissan hluta af verðbrjefum ræktunarsjóðsins við tilteknu verði. Það var verið að tala um að fyrirskipa bankanum þetta, og jeg ímynda mjer, að bankastjórnin hefði gert það, ef þingið hefði gengið svo frá því. En hv. 3. landsk. lagði eindregið á móti því, og sömuleiðis hv. 1. þm. Rey kv. (MJ). Þeir báru það báðir fram sem ástæðu, að bankastjórnin legðist á móti þessu, og álitu því óforsvaranlegt að leggja þetta á bankann. Af framansögðu finst mjer, að ef verið er að tala um auðmýkt hjá mjer gagnvart stjórn Landsbankans, þá megi vitna í fleiri um slíka hluti. Menn sjá vonandi af þessu, að það er ekki hægt að koma fram málinu, vegna þess að það strandar á þeim aðilum, sem eiga að framkvæma það.