12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal vera stuttorður, enda á jeg ekki margar brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Það er þá brtt. á þskj. 450, að lagðar verði fram til vegar yfir Hvolsvöll 10 þús. kr. Þar sem hæstv. atvmrh. hefir tekið vel í það, að þetta verði veitt, ef tekjuaukafrv. verða samþykt, þá tel jeg víst, að þetta fáist. Ástandið nú er það, að þegar rigningar ganga, þá stöðvar þessi kafli algerlega umferð um Suðurlandsundirlendið.

Þá er það LVI. till. á þskj. 435, sem jeg á ásamt hv. 1. þm. Rang. (EJ), um að hækka sandgræðslustyrkinn úr 40 þús. kr. upp í 50 þús. kr. og að 15 þús. kr. af þessu sandgræðslufje sje varið í þarfir sandgræðslunnar í Gunnarsholti. En á þskj. 458 höfum við lækkað þessa kröfu um 5000 kr. En fyrir sandgræðsluna er bráðnauðsynlegt að fá skýli þarna fyrir frægeymslu, verkfæri o. fl. Það er líka örðugt að halda þarna við girðingum án þess að hafa mann til að líta eftir þeim. Þetta er því sjálfsögð sanngirniskrafa.

Þá er það LXI. till. á sama þskj., að Dýraverndunarfjelaginu verði veittar 1000 kr. Áður stóð í fjárlögum styrkur til þessa fjelags, en fyrv. stjórn feldi hann niður. Tel jeg það illa farið. Slík mannúðarfjelög eru alstaðar annarsstaðar styrkt af opinberu fje. Þetta fjelag hjer hefir mikið gert að því að hvetja menn til að fara vel með skepnur, sem er þýðingarmikið, bæði frá fjárhagslegu og mannúðarsjónarmiði sjeð. Ef landsmönnum hefði verið innrætt þetta fyr á öldum, þá er jeg viss um, að afkoma landsmanna hefði orðið betri. Það vita allir, hver munur er á afurðum kvalinna og velfóðraðra skepna. Þetta fjelag hefir stofnað hæli fyrir dýr, bæði hunda og hesta, Hefir sveitamönnum, sem hingað ferðast, komið það vel. Þá hefir það og haldið úti blaði. Fjárhagsafkoma þess er ekki góð. Því er farið fram á, að það fái þennan litla styrk. Vona jeg, að hv. deild sjái sóma sinn í að samþykkja hann.

Þá er brtt. XCI á þskj. 435. uppgjöf á láni og endurgreiðsla til Holtavegarins. Það hefir nú verið margsýnt fram á það, að sýslunni var um megn að greiða 1/3 af endurbyggingu Holtavegarins. Þetta hefir stöðvað allar framkvæmdir í vegagerð innansýslu síðan, enda þótt sýslan leggi á sig stórútgjöld í rentur og afborganir á þessu gjaldi. En hún hefir ávalt staðið í skilum með vexti og borgað af láninu. Og þar sem við höfum nú fært þessa upphæð niður um 4 þús., vona jeg, að hugur hv. þdm. verði með þessu. Ef þetta verður samþykt, þá getur sýslan farið að snúa sjer að öðrum nauðsynlegum vegarköflum, svo sem vegi niður að Safamýri, þessu blómlega slægjulandi, en sem er illfært að nú vegna vegarleysis. Sömuleiðis yrði endurbygður Fjallabakseða Landvegurinn öðru nafni, sem er í mikilli niðurníðslu. Þetta mundi verða gert á næstu árum með hálfu framlagi frá sýslunni, ef þessari ósanngjörnu kröfu um 1/3 framlag til Holtavegarins verður ljett af henni.