14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (1879)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Magnús Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs, þegar hv. þm. N.-M. settist niður, af því að þá hafði enginn annar orðið til þess, en jeg vildi ekki láta ósvarað ræðu hv. þm. Nú hefir hv. 2. þm. Skagf. tekið fram ýmislegt af því, sem jeg vildi hafa sagt, svo að jeg get verið stuttorður.

Jeg verð að segja, að mjer finst ákaflega leitt, að þetta mál skuli nú vera til 1. umr., þegar komið er að þinglokum. Hjer er um svo mikilsvert og gott mál að ræða, að jeg held, að þessu þingi hefði ekki veitt af að afgreiða það, til þess að halda uppi þeim sóma, sem það ætti að njóta hjá þjóðinni. Jeg býst við, að af þessu þingi fari þær sögur, að því hefði ekki veitt af að samþykkja að minsta kosti eitt gott mál. Því verður ekki neitað, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, gæti tekið ýmsum umbótum og hefði eflaust gert það, ef því hefði verið sint í tæka tíð. En jafnvel þó að einhver missmíði kunni að vera á því, held jeg, að annað eins hafi skeð og það, að því yrði vikið til betri vegar á næsta þingi. Þegar það þykir sæma, að vera sí og æ að hringla með seðlabankalögin, ætti að vera óhætt að breyta einhverjum smáatriðum í þessum lögum.

Eins og hv. 2. þm. Sk. gat um, er það einn aðalkostur við þetta frv., að sett er fram fyrirkomulag, sem er reynt. Fjelag það, sem starfað hefir með þessu fyrirkomulagi, hefir staðið í skilum, og jeg er viss um, að það yrði hin mesta búbót, ef fleiri gæti verið með. Jeg er í engum vafa um, að þetta mál lifir, þó að það nái ekki fram að ganga nú. Það kemur fram aftur, ef til vill í annari mynd, og þá verður enginn flokkur á móti því, og engin sterk andstaða, svo að það nái ekki samþykki. Það verður að útvega bændum og atvinnurekendum við sjó rekstrarlán. Það er ákaflega mikils virði, hvað öllu er hjer stilt í hóf. Síðan er hægt að prófa sig áfram hægt og hægt, eftir því sem reynslan bendir á.

Eitt atriði er þó í frv., sem jeg get ekki felt mig við, en það er aðferðin, sem stungið er upp á við útvegun fjárins. Jeg hefði talið langbest, að ríkið tæki sjálft lánið og ljeti svo Landsbankann annast framkvæmdina. Það er ekki hættulaust, að leggja slíkar kvaðir á seðlabanka, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En þetta er atriði, sem auðvelt er að bæta úr á sínum tíma.

Út af athugasemd hv. þm. N.-M. vil jeg taka það fram, að jeg var alveg hissa á, hvernig hann gat fengið það út, að verið væri að skerða rjett smáframleiðenda. Honum hlýtur að vera það ljóst, að það er ekki nokkur rjettur tekinn af nokkurum manni. Allir bændur og smáframleiðendur geta tekið lán eins og nú. Þeir hafa alveg sama rjett og áður. Og ef þeim finst betra að skifta beint við bankann, geta þeir líka gert það. Þessi athugasemd hv. þm. var því hrein kórvilla frá upphafi til enda. Jeg sje ekki, að neinn ölmusubragur sje á þessu. Það er ekki farið fram á neina vaxtaívilnun. Allir milliliðir fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það er aðeins verið að skipulagsbinda þessi viðskifti og tryggja það, að fyrirkomulagið verði ekki óvinsælt eða sigli í strand. Hv. þm. þótti það mikil niðurlæging, að menn skyldu vera skyldaðir til þess að ganga í fjelagsskap með samábyrgð, til þess að fá fram rjett, sem þetta fyrirkomulag heimilar þeim. Maður skyldi ekki halda, að þannig, talaði þingmaður, sem er hlyntur samvinnufjelagsskap. Á þessu byggist samvinnufjelagsskapur og meira að segja beinlínis á skattaívilnun. Og eins og menn eru ekki skyldugir til þess að ganga í þann fjelagsskap, sem hjer er um að ræða, eru þeir heldur ekki skyldugir til þess að ganga í kaupfjelag. Þetta tvent er alveg sambærilegt. Hjer eru bara settar upp ýmsar reglur. Til þess að geta notið þessa fjár, verða menn að ganga í fjelagsskap, til tryggingar því, að fjeð verði greitt á rjettum tíma. Nú sagði hv. þm., að vanskil ættu þegar í stað að valda rjettindamissi. Voru það þá orðin rjettindi, að vera í þessum fjelagsskap? En hv. þm. hlýtur að sjá, að vitaskuld er nauðsynlegt að ganga svo sterklega frá, að full skil verði í þessum fjelögum.

Hv. þm. taldi, að ef þetta frv. væri samþykt, væri svo langt frá því, að það minkaði skuldaverslunina, að það mundi jafnvel auka hana. Hv. 2. þm. Sk. hefir svarað þessu. Jeg verð að segja, að það kemur ekki heim við það nál., sem allshn. gaf út um frv. hv. þm., um fyrningu skulda. Þar lýsir allshn. yfir því, að það frv. sje mjög þarft og rjettmætt, en það geti bara ekki komið til framkvæmda, meðan engin lánsstofnun sje til handa þessum sömu mönnum. Í nál. segir svo: „ . . . . Enda þótt nefndin álíti tilgang frv. góðan og rjettmætan, þá telur hún mjög varhugavert að samþykkja frv. þetta nú, sjerstaklega sakir þess, hve ógreiðan aðgang almenningur hefir að lánsstofnunum, og yrði því ákvæði frv. skaðlegur hemill á lánstrausti manna ....“. Nefndin lítur sem sje svo á, að við hliðina á frv. hv. 1. þm. N.-M. þurfi að koma eitthvað svipað því, sem hjer er farið fram á. Og það er alveg rjett. Ef taka á með ströngum ákvæðum fyrir það, að kaupmenn láni, verður að sjá fyrir því, að hægt sje að fá lán annarsstaðar. Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er því einn nauðsynlegi undirbúningur hins málsins, að taka fyrir eða minka lánsverslunina. Þessi andmæli koma því úr hörðustu átt.

Það er alveg rjett, sjeð frá almennu sjónarmiði, að sjerhver nýr möguleiki til lántöku getur leitt til þess, að einstaka maður skuldi meira en áður. En ef ætti að koma í veg fyrir það, ætti að loka öllum möguleikum til þess að fá lán. Sá fjelagsskapur, sem hjer um ræðir, er einmitt settur sem milliliður, þannig, að strax er hægt að hafa gát á því, hverjir standa í skilum. Fjelagsstjórnin þekkir hvern mann og hag hans, og getur því haft á hendi það nauðsynlega eftirlit.

Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en jeg vil enn á ný láta í ljósi óánægju mína yfir því, að þetta frv. skyldi vera tekið svo seint fyrir, að ekki er hægt að afgreiða það á þessu þingi.