14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

81. mál, atvinnurekstrarlán

Magnús Jónsson:

Mjer verður nú á að segja líkt og Hvamm-Sturla sagði við Sæmund Jónsson: „Miklu muntu vera maður vitrari, en eigi munir þú vita, hvárt þú ert eða aðrir menn.“ — Miklu er hv. þm. V.-Sk. vitrari maður en svo, að ekki hafi hann sjeð, að þessi tillaga Íhaldsmanna á ekki upp á pallborðið hjá meiri hluta þingsins, þótt hann þykist máske ekki hafa rent öfundaraugum til frv. En af einhverju er það þó, ef því verður ekki leyft fram að ganga nú. Það er að vísu gott, ef það verður tekið upp aftur. En hitt er víst, að þetta vandamál verður aldrei leyst, svo í lagi fari, nema bygt sje á grundvelli frv. um úthlutun lánsfjárins og tryggingar fyrir skynsamlegri notkun þess. Bankar, með kanske örfáum útibúum, munu aldrei leysa þetta að gagni. Það verða að vera stofnanir í hjeruðunum sjálfum, sparisjóðsstjórnir og fjelagsstjórnir, sem hafa það með höndum. Það er aðalatriðið.