20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

110. mál, útflutningsgjald af síldarlýsi

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er eiginlega dálítið öðruvísi ástatt með þetta frv., sem hjer liggur fyrir, en hitt, sem var næst á undan. Mjer finst það dálítið óviðfeldin aðferð, að taka þessa einu tegund lýsis og leggja skatt á hana. Jeg hefði þá kunnað betur við, að tekið væri til athugunar útflutningsgjald af lýsi yfirleitt. Mjer finst hjer eima eftir af þeim gamla ósið, að leggja í einelti þá menn, sem hafa stundað þessa atvinnugrein. Þetta vildi jeg taka fram, þó að þess hafi ef til vill ekki verið þörf, því að hv. nefnd hefði hvort sem var sjeð ósamræmið í þessu. Það er full ástæða til að samræma þetta, að því er samkynja tegundir snertir, og mætti þá ef ef til vill gera einhverja breytingu á gjaldinu.

Hitt játa jeg, að það situr ekki vel á mjer, að andmæla till. um auknar tekjur til handa ríkissjóði. En þó verða menn að gæta hófs og sanngirni í slíkum till. sem öðrum, og ganga svo frá þeim, að ekki sje með rjettu hægt að benda á mjög mikið ósamræmi milli skyldra tegunda.