12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

Jeg ætla að minnast á nokkrar brtt., sem jeg er viðriðinn, og þó sjerstaklega eina, sem að vísu er skýrð mjög greinilega í skjali, sem útbýtt hefir verið, en jeg býst tæplega við, að hv. þm. hafi gefið sjer tíma til að lesa, því að skjalið er langt. Það er um fyrirhugaða byggingu á sandgræðslusvæðinu í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Þannig er þetta mál til komið, að á þinginu í fyrra var afgreidd till. um notkun sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti og Keldum með rökstuddri dagskrá þess efnis, að það yrði athugað, á hvern hátt ríkissjóði yrði aflað tekna af þessu sandgræðslusvæði eins og þá var. Stjórnin leitaði umsagnar stjórnar Búnaðarfjelags Íslands um það, hver ráð ætti að hafa í þessu efni. Og þetta skjal, sem ekki er tölumerkt, en jeg býst við, að hv. þm. kannist við, þótt jeg ætlist ekki til, að þeir hafi lesið það, er ávöxtur þeirrar málaleitunar.

Stjórn Búnaðarfjelags Íslands leggur það til í þessu skjali, að árið 1929 verði reist bygging á þessu svæði, sem gert er ráð fyrir að kosti 26 þús. kr. Við þm. Rang. þorðum ekki að fara fram á það við þingið að gera ráð fyrir, að reist verði svo dýr bygging. En hinsvegar sáum við, að þótt út í minna væri farið, mundi það samt verða sandgræðslunni mikilsvert.

Þannig hefir verið ástatt undanfarið á sandgræðslusvæðinu, sem menn hafa miklar vonir um, að verði landinu að notum, að þar hefir ekki einu sinni verið hægt að setja inn verkfæri verkamanna; þar hefir ekkert skýli verið af neinu tægi. Það hefir ekki verið hægt að hýsa grasfræ, þegar það ráð var tekið að safna grasfræi á haustin á Reykjum á Skeiðum, heldur verður að flytja það niður á Eyrarbakka, til þess að fá húsrúm fyrir það yfir veturinn, og flytja það síðan aftur til baka á vorin, þangað sem það er notað. Þetta er bæði óhentugt og kostnaðarsamt. En þótt ekki sje lagt út í eins stóra byggingu og bæði sandgræðsluvörður og búnaðarfjelagsstjórnin álíta hentugast og æskilegast, þá ætti að vera mikil bót að og mætti komast af með minna. Jeg vona, að hv. þm. taki eftir, að við hv. 2. þm. Rang. og jeg höfum borið fram á þskj. 435 till. um 15 þús. kr. veittar í þessu skyni. En við nánari athugun sáum við, að það mundi verða æðimikil bót, þótt ekki fengist meira en 10 þús. kr. Við höfum því borið fram brtt. við þessa till. okkar um að lækka það, sem við förum fram á, niður í 10 þús. kr.

Jeg vænti þess, að háttv . þm. verði hlyntir þessu, er þeir gæta að nauðsyn þessa máls, og því fremur, ef þeir hefðu tíma til þess að lesa till. Búnaðarfjelags Íslands. Það ætti að vera fljótlegt fyrir þá hv. þm., sem viðstaddir eru, að fletta upp síðustu síðu á þessu skjali og sjá, hvað Búnaðarfjelag Íslands leggur til. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öllu athuguðu leyfum vjer oss að leggja til:

1) að á næsta ári verði reistar hinar umræddu byggingar í Gunnarsholti og til þess áætlaðar kr. 26000,00.

2) að árið 1930 verði reistar hinar umtöluðu byggingar á Stóruvöllum og til þess áætlaðar kr. 18ooo,oo.

3) Þá er byggingar eru fullgerðar í Gunnarsholti og Stóruvöllum, þá verði komið þar upp kúabúi, sem starfrækt sje fyrir fje sandgræðslunnar“.

Að þessu athuguðu vona jeg, að okkar hóglegu till. verði vel tekið. Jeg býst við, að margir verði mjer samdóma í því, að svo sje fjárhagnum best varið að verja honum sem mest til verklegra framkvæmda. Að verja stórfje til gamans, ef svo mætti segja, þótt bak við gamanið megi benda á eitthvert gagn, er hjegómi á móti því að verja fjenu til þeirra fyrirtækja, sem kallast verklegar framkvæmdir, svo sem vitar, brýr, símar, vegir o. s. frv., sem fólkið getur alls ekki lifað án. — Annars þýðir ekki að ræða það frekar. Ræður breyta yfirleitt ekki miklu um afstöðu manna, síst þegar fáir eru viðstaddir til að hlusta á þær.

Þá höfum við þm. Rang. í sameiningu borið fram brtt. 435,XCI, um atriði, sem felt var við 2. umr. með 14:14 atkv. Það háttalag var að okkar áliti svo fjarstætt allri sanngirni, að við getum ekki við unað. Jafnframt því, sem hv. deild fellir eftirgjafar- og endurgreiðslukröfu Rangárvallasýslu, sem fólst í okkar till., samþykkir hún samskonar kröfu frá Árnesinga hálfu um eftirgjöf á láni til Flóavegar þar í sýslu. Það nær ekki nokkurri átt að samþykkja annað og fella hitt, því að jafnt er á komið um hvorttveggja. Höfum við lækkað till. nokkuð, í von um , að hún fái því frekar fundið náð fyrir augum háttv. þm. Um Rangárvallasýslu stendur þannig sjerstaklega á, að hún hefir engin not strandferða. Það mælir því öll sanngirni með því, að hún nyti þeim mun meiri styrks til samgöngubóta landleiðis en aðrar sýslur.

Þá er í þriðja lagi hinn margumtalaði Hvolsvallarvegur, sem jeg meðal annars mintist á fyrir nokkrum dögum, og síðast var minst á í dag af hv. samþm. mínum (GunnS). Jeg hefi áður lýst ástandinu á þessum vegarspotta, og skal því ekki fara að endurtaka það nú, sem jeg hefi um hann sagt, en aðeins taka það fram, að þetta er ákvarðað eftir till. vegamálastjóra, svo hægt verði að komast þarna nokkurnveginn hindrunarlaust.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deildarmenn með því að fara að tala um aðrar till., en jeg vænti þess, að þeir sýni till. mínum alla sanngirni.