06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (1900)

110. mál, útflutningsgjald af síldarlýsi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Þetta er framhald af því, sem verið var að tala um við málið hjer næst á undan (útflgj. af síld). Nefndin klofnaði, eins og vant er, en meiri hl. hefir þó ekki fallist á frv. óbreytt.

Eins og nú er, er greitt útflutningsgjald af síldarlýsi 1½%, en frv. gerir ráð fyrir, að greidd verði 3% að auk í útflutningsgjald, m. ö. o., ef þetta yrði samþykt, mundi útflutingsgjaldið verða 4½%. Það þótti meiri hl. nefndarinnar of langt gengið, en fjelst á að samþykkja frv. með þeirri breytingu, sem greinir á þskj. 361, að í staðinn fyrir 3% komi 1½%. Verður þá útflutningsgjald af síldarlýsi alls 3%, ef þetta verður að lögum, eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til.

Það er nú kanske ekki gott að gera sjer grein fyrir því, hvað tekjur ríkissjóðs mundu verða af þessu. Það fer fyrst og fremst eftir síldarafla, og svo því, hve mikið fer í verksmiðjurnar af honum. En eftir útflutningi síðasta árs, mundi það verða yfir 60000 krónur að minsta kosti, sem kæmi í ríkissjóð sem aukning af þessu.

Þá hefir verið minst á það áður, við umræðurnar hjer í deildinni, að ástæða væri til að taka annað lýsi þarna undir. Meiri hl. fjhn. hefir ekki gert það, og jeg get heldur ekki sagt um, hvernig meiri hl. mundi taka í það, ef slík tillaga kæmi fram, eins og mjer hefir jafnvel skilist af einstöku þingmanni, að rjett væri. En jeg gæti sagt það fyrir mig sjálfan, að jeg hefði ekkert á móti því; en af því að það hefir verið umtal um þetta á milli þingmanna, þá minnist jeg á þetta.

Jeg tel í rauninni sjálfsagt, að þetta frv. fái að ganga áfram, úr því að hitt hefir verið samþykt, því að þar voru tekjur ríkissjóðs lækkaðar. Og þó að það kanske vinnist upp, þá álít jeg samt sem áður, að rjett sje að samþykkja það útflutningsgjald, sem hjer er farið fram á, eftir þeim tillögum, sem meiri hl. fjhn. gerir hjer.

Fleira hefi jeg ekki að segja um málið. Hv. minni hl. fjhn. vill ekki samþykkja þetta, og það af þeim ástæðum, sem greinir í hans nál.