06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (1916)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Erlingur Friðjónsson:

Þau eru þá komin hjer til 2. umr., þessi tvö frv. mín um útflutningsgjald af síld og síldarlýsi. Sú hv. nefnd, sem um þau hefi fjallað, hefir klofnað, og meiri hl., sem að vísu leggur til, að frv. verði samþ., hefir með brtt. sínum horfið alllangt frá mínum till., í frv.

Jeg get vel skilið, þó að hv. fjhn. gæti ekki fallist á mínar till. í þessu efni, því það er mjög algengt, þegar eitthvað hefir viðgengist um lengri tíma, sem jeg vil kalla óreglu eða ósanngirni, þá er erfitt að fá því breytt til bóta í einum svip. Mjer er það líka fullljóst, að það er erfitt að færa eðlileg rök fyrir því, að útflutningsgjaldið eigi að vera lægra af síldarafurðum úr síldarverksmiðjum en af útfluttri síld. Jeg álít, eins og hv. minni hl., að útflutningsgjaldið hvíli aðallega á hráefni vörunnar. Og þá er ekkert, sem rjettlætir, að taka lægri toll af síld, sem notuð er til bræðslu, nema því aðeins, að það borgi sig ver að bræða hana, heldur en að selja hana saltaða. Nú var í gær, í þessari hv. deild, rætt um, að það borgaði sig mjög vel að kaupa síld til bræðslu, og reyndi enginn að mæla móti því, að síldarverksmiðjurnar hjer hefðu árlega mjög mikinn hagnað af því. Hinsvegar er og ljóst af marga ára reynslu, að verslun með útflutta, saltaða síld hefir gengið mjög illa. Þess vegna fæ jeg ekki skilið, að hv. minni hl., sem engu vill breyta um útflutningsgjaldið, eins og það nú er, skuli geta sætt sig við það, fyrst hann kannast við, að útflutningsgjaldið hvíli á hráefninu.

Nú hvílir á saltaðri síld 1.50 kr. útflutningsgjald, en á jafnmiklu hráefni, komnu í gegnum síldarverksmiðjurnar, nemur gjaldið aðeins 28 aurum, en það er sama sem að fimmfalt hærra gjald sje greitt af saltaðri síld en þeirri, sem í verksmiðjurnar fer. Þó að síldin sje seld þriðjungi hærra verði til söltunar en til bræðslu, þá er talið að borgi sig eins vel að veiða í bræðslu, af því fyrst og fremst, að þangað má selja alla þá síld, sem óhæf er til söltunar og öll afgreiðsla fljótari.

Hv. minni hl. heldur því fram, að síldarframleiðendur beri tollinn af saltaðri síld, en ekki þeirri, sem fer í bræðslu. En þetta er af ókunnugleika sagt, eða einhverjum misskilningi, þar sem vitanlegt er, að um 3/4 hlutar af bræðslusíldinni er í höndum útlendinga. Að vísu er ætlast til, að þessi hlutföll breytist, þegar Íslendingar hafa sjálfir eignast síldarbræðsluverksmiðjur.

Jeg býst nú við, að jeg geti gengið inn á brtt. hv. meiri hl., þótt jeg játi, að þær sjeu allfjarri því, er jeg lagði til í frv. mínu. Jeg get líka tekið undir þau ummæli hv. frsm. minni hl., að af því að af kryddi því, sem notað er í hverja tunnu kryddsíldar, er búið að greiða toll, sem nemur á þriðju krónu, þá sje ekki rjett að greiða háan toll af útfluttri kryddsíld.

Út af því, sem segir í nál. hv. meiri hl. á þskj. 362, að tveir af þremur nefndarmönnunum leggi til, að 2. gr. frv. falli niður, þá vildi jeg skjóta því til þeirra og annara hv. þdm., hvort þeir geti ekki fallist á, að 2. gr. frv. fái að standa eins og hún er, til 3. umr. Jafnframt vildi jeg gera þá fyrirspurn til hv. fjhn., hvort hún gæti ekki fallist á, að í staðinn fyrir að miða tollinn við 25 kr. verð hverrar síldartunnu, sem seld væri til Rússlands, lækkaði verðið niður í 22 kr. Þetta hjá mjer, í frv., að miða tollinn við 25 kr. verð, sem fengist fyrir hverja tunnu, var ekki annað en að síldartunnan er þá komin upp í það verð, sem þarf að fást, til þess að sje ekki beinlínis skaði að selja hana. En eðlilega verður sá skaði meiri, eftir því sem hún lækkar meira í verði, og þá meiri ástæða til að gefa tollinn eftir.

Mjer finst óviturlegt að því sje valdið þegar í upphafi með háu útflutningsgjaldi eða öðru, að ríkið eyðileggi þennan markað í Rússlandi. Hitt tel jeg rjettara, og meiri hagfræði í því, að lyft sje undir viðskiftin við Rússland þegar í byrjun, því það getur orðið til mikilla hagsbóta, er stundir líða. Þess vegna vil jeg beina til hv. fjhn., hvort ekki muni rjett að láta þessa gr. standa til 3. umr., og breyta henni þá í það horf, sem jeg hefi stungið upp á.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að tryggur markaður væri fenginn fyrir síldarmjöl og lýsi, og því ætti að stefna að því, að sem mest af síldinni færi í bræðslu, en af því leiddi aftur, að tollurinn þyrfti ekki að lækka á saltsíldinni. Jeg veit ekki betur en að látið sje í bræðslu það, sem ekki þarf að salta til útflutnings. En jeg vil benda á, að okkur er ekki síður nauðsynlegt að halda þeim markaði, sem við höfum aflað okkur fyrir saltaða og kryddaða síld. Jeg álít það mestu yfirsjón, ef menn sneru sjer eingöngu að síldarbræðslunni, en hættu að mestu leyti að hugsa um að salta síld til útflutnings. Við eigum að hafa þetta í okkar höndum hvorttveggja, og tryggilega um það búið. Því það þarf ekki að efa, að markaður með salt- og kryddsíld getur verið tryggur, ef vel og viturlega er um það mál búið.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál Jeg mun geta fallist á brtt. hv. meiri hl., nema það, að fella niður 2. gr.