06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

111. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Ingvar Pálmason:

Jeg tel rjett, að segja nokkur orð fyrir hönd okkar tveggja, sem skrifað höfum undir nál. meiri hl., en leggjum þó á móti 2. gr. frv., sjerstaklega af því, að vikið hefir verið að okkur nokkrum orðum undir umr. Það, sem við teljum varhugavert við 2. gr. frv., er ekki það, að við ekki viðurkennum, að undir vissum kringumstæðum sje rjett að gefa upp útflutningsgjald af síld, þegar um nýjan markað er að ræða, en við lítum hinsvegar svo á, að það sje dálítið varhugavert að binda þetta með lögum, og sjerstaklega varhugavert að binda það við nokkurt verð á síldinni, því að við getum ekki fyrirfram verið vissir um, að það mark, sem við setjum fyrir þessu ákvæði, verði um aldur og æfi viðeigandi. Það kann vel að vera, að það sje það nú, en hinsvegar engin vissa fyrir, að svo verði í framtíðinni. Það getur vel verið, að lægra verð en 25 krónur á tunnu kunni að verða hagstætt verð, þótt menn alment nú telji það ekki, og því álitum við rjettara, að láta þetta ekki standa í lögum, og hinsvegar treystum við því, að Alþingi verði svo sanngjarnt í hverju tilfelli, þegar um nýjan markað er að ræða, að það gefi eftir tollinn, ef nauðsyn þykir til bera.

Viðvíkjandi fyrirspurn, sem hv. þm. Ak. beindi til okkar, skal jeg geta þess, að jeg tel lítilsvert, að láta greinina standa til 3. umr., vegna þess að það vinnst ekki mikið við það, þótt við förum að færa þetta mark til. Þó að farið verði að lækka þetta lágmark á síldarverðinu eitthvað, þá verður það alveg sama. En svo er hjer ástatt nú, að það er ekki hægt að verða við þessum tilmælum hvað það snertir, vegna þess, að það liggur fyrir tillaga um að fella niður breytinguna. Ef við tveir í meiri hl. hefðum ráðið, þá hefði verið hægt að framkvæma þetta, en af því að hv. minni hl. hefir beinlínis gert tillögu um að greinin fjelli niður, er ekki hægt að verða við þessu. Ef við berum fram tillögu um að fella greinina niður, þá getum við ekki komið með þá tillögu aftur við 3. umr., því að það er á móti þingsköpum. Jeg vona, að hv. þm. Ak. athugi, að þetta er fyrst og fremst af því, að við teljum ekki brýna nauðsyn á því að verða við tilmælum hans, og í öðru lagi af því, að þetta er ekki löglegt. Við 2. umr. viljum við ekki á neinn hátt spilla fyrir afnámi þessa útflutningsgjalds, þegar um nýjan markað er að ræða. Hitt er þegar tekið fram, að okkur þykir dálítið varhugavert að binda þetta með lögum.

Jeg hefi þá gert grein fyrir afstöðu okkar, og þykir þá rjett að geta þess líka, að ástæðan til þess, að við meiri hl. fjhn. lögðum til, að útflutningsgjald af fiskiúrgangi yrði hækkað frá því, sem var í upphaflega frv., var það, að hjer eru að koma upp fiskúrgangsverksmiðjur, og vona jeg, að þeim fjölgi á næstu árum, og helst svo, að þær komi upp í hverri stærri verstöð á landinu. Hitt er alkunna, að Norðmenn hafa haft skip hjer uppi, til að safna þessum þurkaða úrgangi og flytja hann til Noregs, til mölunar þar, og þetta hafa þeir gert í fullri samkeppni við þær mölunarverksmiðjur, sem hjer eru. Við teljum þess vegna rjett, að þessi útflutningur sje töluvert skattlagður. Jeg vona því, að hv. deild skilji það, að þetta er ekki alveg út í loftið, að við höfum lagt til, að síðasti liður tillögunnar verði hækkaður.