12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á aðeins eina brtt. við þennan kafla fjárlagafrv. undir LIX. lið á þskj. 435. Jeg verð að segja, að mjer voru það nokkur vonbrigði, að hv. fjvn. skyldi ekki sjá sjer fært að taka upp þennan lið, með því að ef ekki er haldið áfram með að treysta og fullgera viðbót öldubrjótsins í Bolungarvík, getur það, sem þegar hefir verið unnið, orðið að meira eða minna leyti ónýtt. Jeg þykist þó sjá, að hjer hafi valdið nokkru um álit vitamálastjóra, sem mun líta svo á, að ekki hafi verið unnið eins tryggilega og hann hafi ætlast til. Jeg verð í þessu sambandi að hafa hjer nokkurn formála til að skýra fortíð þessa máls.

Það er þá fyrst að geta þess, að jafnan hefir verið mikill ágreiningur milli vitamálastjórnarinnar og hreppsnefndarinnar um fyrirkomulag á byggingu öldubrjótsins í Bolungarvík. Upphaflega var öldubrjóturinn átta metra breiður, en þegar verkfræðingarnir komu til, var framhaldið haft mjórra, og til þess, meðal annars, rekja hjeraðsbúar þau óhöpp, sem orðið hafa. Það er líka svo, að enginn, ekki einn einasti þeirra verkfræðinga, sem hafa haft framkvæmd verksins með höndum, hefir komið til Bolungarvíkur og sjeð, hvílíkan feiknakraft brimið hefir á þessum stað, þegar það fer hamförum. Það hafa líka orðið sífeldar bilanir, og auk þess hafa kostnaðaráætlanir verkfræðinganna farið mjög fram úr áætlun. Þess er því tæplega að vænta, að hjeraðsbúar treysti þeim í blindni. Til þess að nefna aðeins síðasta dæmið, skal jeg geta þess, að árið 1922 var bygð 15 metra löng framlenging og áætlað, að hún mundi kosta 32 þús. kr. En þegar verkinu var lokið, varð kostnaðurinn ekki 32, heldur 58 þús., og þar af varð hreppurinn að greiða 32 þús. og það, sem verra var, að eftir fyrsta stórbrimið var mikið af þessu verki eyðilagt.

Jeg skal ekki fara út í einstök atriði þessa máls, en það er víst, að verkið hefir orðið bæði ríkissjóði og ekki síst hjeraðsbúum dýrara en það hefði þurft að vera. Þessi framlenging frá árinu 1922 hefir altaf verið að bila og árið 1926 varð hreppurinn að kosta stórfje til viðhalds á henni. Seint á árinu 1926 stóð til boða kaup á steinnökkva nokkrum, og var leitað álits vitamálastjóra og taldi hann það hið mesta þjóðráð að kaupa nökkvann og nota hann við framlengingu öldubrjótsins. Voru kaupin síðan ráðin með einróma samþykki vitamálastjóra. Landsbankinn hljóp undir bagga með hjeraðsbúum um lán, og var nökkvinn keyptur fyrir eitthvað innan við 20 þús. kr.

Nú voru till. vitamálastjóra þær, að steypa skyldi lag innan á nökkvann beggja megin og auk þess skilrúm tvö eða þrjú.

Nú er það svo, að þessir nökkvar, sem eru bygðir á stríðsárunum, eru mjög rambyggilega bygðir, því þeir eru dregnir af öðrum skipum og þurftu því að vera sjerlega sterkir. Þessi skip eru bygð eða steypt á stálgrind mikilli og steypuefnið er granitsteypa, en eins og menn vita, er hún margföld að styrkleika á við venjulega steinsteypu. Hreppsnefndin áleit ekki þörf á að fjölga, skilrúmum í nökkvanum og taldi nóg að steypa innan á þá hlið hans, sem snýr að brimáttinni, eins meters þykt lag. — Hreppsnefndin þóttist hafa rekið sig á mikil mistök í framkvæmd verkfræðinganna, og því var það, að hún leyfði sjer að koma fram með till., sem voru nokkuð á aðra lund en till. verkfræðinga, til fjvn. Nd. á síðasta þingi. Till. hreppsnefndarinnar voru á þá leið, eins og jeg hefi áður getið, að steypa innan á aðra hlið nökkvans og ennfremur, að steypt yrðu og varpað út stórum björgum til að hlífa öldubrjótnum fyrir briminu og svo væntanlegum hafís, sem altaf má búast við, að komi þar að landi. Það er alveg víst, að það er ekki svo lítil áreynsla, þegar brimið skellur á garðinn beinan, eins hár og hann nú er, en með því að varpa út af nökkvanum 100–200 8–10 smálesta steinum, skellur brimið á þeim og þeir hlífa við mesta þunganum af briminu.

Hjer í Reykjavík er ekki mikið brim á við það, sem á sjer stað vestra, en jeg sje þó ekki betur en að við hafnargarðana hjer sje varpað niður miklu grjóti til hlífðar garðinum, og jeg er sannfærður um, að í því er miklu meira öryggi en þó garðurinn hjer væri hafður sterkari. Hinsvegar var talið nauðsynlegt að reka niður trjestaura þeim megin við öldubrjótinn, sem skip liggja, til þess að forðast níðslu á garðinum. Hreppsnefndin áleit, að nokkuð mætti að skaðlausu spara af því, sem áætlun vitamálastjóra gerði ráð fyrir. Til dæmis taldi hreppsnefndin augljóst, að óþarft væri að steypa í botn nökkvans, en til þess var áætlað 14 þús. kr. Ófyrirsjáanleg útgjöld fram yfir verkstjórn og þess háttar voru talin 4 þús. kr. En þeir, sem kunnugir eru, telja þetta óþarft.

Jeg get hugsað mjer, að vitamálastjórninni hafi ekki þótt það neitt óánægjulegt að geta bent á missmíði í þessu verki, sem unnið var á síðastl. sumri, því að vitanlega höfðu hjeraðsbúar verið allberorðir og djarforðir um mistök verkfræðinganna.

Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, er það ljóst, að það, sem óumflýjanlegt er að gera, er að varpa niður nógu mörgum 8–12 smálesta þungum steinum við ytri hlið nökkvans, að steypa eins meters þykt lag ofan á nökkvann — þar er nú 8 þuml. þykt lag — og svo að tengja steinnökkvann tryggilega við öldubrjótinn gamla.

Landsbankinn, sem lánaði fje til kaupa á þessum nökkva, eins og jeg gat um áður, lánaði það með það fyrir augum, að Alþingi stæði við loforð sitt frá síðasta þingi um alls 35 þús. kr. styrk til þessa verks. Það er nú ekki að undra, þótt menn sjeu hræddir um skemdir á þessu mannvirki, þar sem það, sem unnið var 1922, hefir enn skekst til muna og menn telja víst, að ef steinnökkvinn hefði ekki verið settur niður í sumar er leið, þá væri gamli öldubrjáturinn að miklu eyðilagður.

Jeg er sannfærður um, að hreppsnefndin hefði aldrei ráðist í þetta verk, ef ekki hefði verið talið fullvíst, að ríkissjóður legði fram helming kostnaðar, eða 35 þús. kr., til þess að fullgera verkið.

Einn af fyrirrennurum mínum hefir sagt, að hausar og hryggir hafi verið látnir í gamla öldubrjótinn, og hygg jeg, að hægt sje að færa sönnur á, að svo hafi verið gert. Á því átti vitamálastjórnin enga sök, heldur sá maður, sem hún fól forstöðu verksins á þeim tíma. Engan mun því undra, þótt slík hrákasmíð hafi ekki staðist hin geigvænlegu átök Ægis.

Nokkrir verkfræðingar hafa látið það álit sitt í ljós, að þeir óttist, að steinsteypan í nökkvanum muni jetast af sjó. Jeg hefi fyrir nokkru átt tal við norskan mann, sem vissi til, að steinnökkvi af líkri gerð og þessi hafði verið notaður á brimastað í Noregi.

Steinnökkvi þessi hafði verið notaður sem geymsluhús og fyrir báta að leggjast við, og sagði Norðmaðurinn, að þrátt fyrir það, þótt steinnökkvinn hefði staðið þarna lengi og fyrir miklu brimi, sæist hvergi á honum.

Jeg vil einnig leyfa mjer að benda á steinnökkvann á Ísafirði, sem ísrek hefir mætt mjög á, og sjer þó ekki á honum hið minsta. Virðist þessi steypa (granítsteypa) afarsterk. Ef steinnökkvinn er ramlega festur við gamla öldubrjótinn og aldan fellur ekki óbrotin á þennan 57 metra langa og 3 metra háa beina steinvegg, heldur verði varpað 100–200 10 smálesta járnbentum steinsteypusteinum út af austurvegg hans, þá óttast jeg ekki um öryggi hans.

Hreppsfjelagið hefir tekið á sig mjög þunga byrði og allir lagt sitt ítrasta fram til þess að tryggja þetta verk, enda er það í raun og veru eðlilegt. Lífsafkoma hreppsbúa byggist á, að þetta verk reynist vel. Menn eru búnir að sjá þess sorglegan vott, hve mikið þessi verstöð hefir oft orðið að láta af hendi sökum brimlendingarinnar. Jeg held, að það hafi síðast verið 1907, að 7 menn fórust þar í lendingunni, en 8 mönnum tókst að bjarga fyrir áræði og karlmensku þeirra, er að björguninni stóðu. Síðan 1866 munu hafa farist í lendingunni í Bolungarvík um 40 manns. Jeg er hræddur um, að hreppurinn sjái sjer ekki fært að tryggja þetta verk svo sem nauðsynlegt er, ef ríkisvaldið nú kippir að sjer hendinni. Það skal að sjálfsögðu játað, að ríkissjóður hefir hlaupið vel og drengilega undir bagga um þetta verk og altaf verið góður til fjárframlaga, en þó hygg jeg, að víða hafi af ríkisins hálfu meira verið lagt fram hlutfallslega til lendinga- og hafnabóta, og skal það þó síst eftir talið.

Hitt þætti mjer ekki gott fyrir hreppsbúa og ekki vansalaust löggjafarvaldinu, ef það skildi við þessa hafnarbót hálfgerða. Með 17500 kr. styrk frá ríkissjóði og jöfnu framlagi frá hreppnum álítur hreppsnefnd, að hægt sje að búa um þetta verk alveg örugglega. Að sjálfsögðu geta enn sem fyrr komið fyrir þau óhöpp, að enn þurfi ríkisstyrk, ef svo ólíklega fer, að verkið ekki reynist fullörugt.

Jeg á svo ekki fleiri brtt. á þskj. 435, en út af till. tveggja hv. þm. vil jeg leyfa mjer að segja nokkur orð.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 435, XXXVII, aukastyrkur til Reykjalaugar á Reykjaströnd og Steinstaðalaugar. Jeg tel það vissulega þarft og gott verk að styðja þetta mál, en hv. fjvn. hefir ekki tekið til greina neinar umsóknir, sem fyrir hafa legið í þessu skyni frá öðrum hjeruðum. Jeg hafði sent til hv. fjvn. umsókn frá ungmennafjelagi Bolvíkinga um styrk til þess að fullgera sundlaug þar. Fyrir nokkrum árum var í Bolungarvík bygð sundlaug, en varð ekki fullgerð, og er nú í ráði að ljúka við hana og byggja yfir laugina. Nú má búast við, að sagt verði, að þessi styrkveiting sje ekki þörf, þar sem mjög vönduð sundlaug er í Reykjanesi, og þurfi ekki tvær sundlaugar við Ísafjarðardjúp.

Í Bolungarvík stendur svo á, að ekki er hægt að synda í sjó, sökum þess að þar er nálega altaf brim við land. Ekkert vatn er þar heldur nærri, svo að Bolvíkingar hafa orðið að leiða vatnið úr ánni, og er ráð fyrir gert að hita síðan laugina upp með einskonar miðstöð. Jeg hefi ekki borið fram brtt. við fjárlagafrv. um styrk til þessa verks, en vil spyrja háttv. nefnd, hvort þeim 10 þús. kr., sem ætlaðar eru til sundlaugabygginga í fjárlögum fyrir 1929, sje ráðstafað á annan hátt, eða hvort nefndinni hafi borist beiðnir, sem hún telur sjer skyldara að sinna en beiðni þeirra Bolvíkinga.

Ef svo er ekki, mun jeg snúa mjer til heilbrigðismálaráðuneytisins í þessu skyni og reyna að fá einhvern styrk, sje þessari upphæð ekki þegar ráðstafað.