21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg mun ekki svara nema fæstu af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, en þess er jeg fullviss, að niðurlagning prestsseturs á Þingvöllum mun af öllum skynsömum mönnum verða talin til þeirrar stefnu, sem vill eyðingu Þingvalla. En stefna okkar, sem viljum láta staðinn halda sínum fornu fríðindum mun verða talin honum til verndar.

Með eignarnámsákvæðinu í friðunarfrv. er sjeð fyrir öllum þeim fjárhagsatriðum þessa máls, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um. En viðvíkjandi eignarnámi, sem nauðsynlegt væri vegna undirbúnings undir 1930, þá bar jeg fyrstur fram till. um að fá afmælisnefndinni slíka heimild, sem nú hefir verið tekin hjer upp aftur. En sú till. var þá feld. Það verður áreiðanlega ódýrara að taka þá landspildu sem með þarf, eignarnámi, svo framarlega sem prestinum er greitt fyrir afnotamissi sinn samkvæmt mati rjettsýnna manna, en ekki farið eftir því, sem hann sjálfur kann að setja upp. Mjer er sjálfum kunnugt um það af 12 ára starfi sem fyrirsvarsmaður ríkissjóðs í þeim efnum, að mönnum er mjög gjarnt til þess, í slíkum tilfellum, að setja hærra upp en rjett mundi þykja eftir mati. Og held jeg, að það sje alveg jafnt, hvort sem það eru Íhaldsmenn eða ekki.