23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (1940)

130. mál, Þingvallaprestakall

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi ekki fyr kvatt mjer hljóðs í þessu máli, en áður en atkvgr. fer fram, vildi jeg mega koma fram með nokkrar spurningar og almennar athugasemdir í sambandi við niðurlagningu prestakalls á Þingvöllum.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa Alþingi borist eindregnar mótmælaskrár frá þeim sóknum, sem nú á að svifta presti. Þá liggur næst að spyrja: Hvers vegna á að gera þessum sóknum svo lágt undir höfði? Hvers vegna á að sýna þeim svo litla nærgætni? Það finst víst fleirum en mjer, að það vera alleinkennilegur hátíðaundirbúningur, að refsa nágrannasveitum Þingvalla með því að svifta þær presti sínum. Enda er auðsjeð, að fólkinu fellur þetta mjög illa, því að eindregin mótmæli hafa komið fram á mjög stuttum tíma. Það hafa komið þrjú skjöl úr Úlfljótsvatnssókn og Þingvallasveit. Eins og kunnugt er öllum, sem hafa farið þarna um, er víðast hvar mjög erfitt að sækja kirkju og fá fullnægjandi prestsþjónustu. Sumstaðar er þetta meira að segja hjer um bil ómögulegt, eins og nú standa sakir. Hvað á fólkið þá að gera, þegar búið er að svifta það prestinum? Jeg verð að segja, að jeg man ekki til, að heilli sókn hafi verið sýndur annar eins ójöfnuður og hjer er farið fram á.

Það má ekki síður líta á þetta mál í ljósi sögunnar. Ef við lítum til ársins 1000, þegar kristnitakan fór fram einmitt á Þingvöllum, er óhætt að fullyrða, að þess atburðar verður einnig minst 1930, þegar minst er elsta þings álfunnar. Ætli útlendingunum, sem þá sækja okkur heim, verði ekki á að spyrja: Hvar er kirkjan? Hvar er presturinn? Hvar er hin forna helgi? Jeg hygg, að okkur verði þá erfitt umt svör. Jeg öfunda ekki þá, sem eiga að bera ábyrgðina á öðru eins óhæfuverki og þessu.

Minning mikilmenna okkar á liðnum öldum er ekki mikill sómi sýndur. Margir þeirra hafa glaðst yfir því, að kirkja var á Þingvöllum og að þar döfnuðu hugsjónir þeirra manna, sem gróðursettu kristnina á landi voru. Svo náið samband er og frá fyrstu byrjun á milli Alþingis og kirkju á Þingvöllum, að ekki er hægt að minnast á annað, nema nefna hitt um leið. Alt þetta á að afmá vegna dutlunga. Jeg fæ ekki sjeð, að með þessu sje sómi ger liðnum tíma, nje nútíð, nje framtíð. Óefað verður haldin hátíð á Þingvöllum árið 2000. Við, sem hjer eigum sæti, lifum vart þá, en minningin um verk okkar lifir, góð eða ill. Hvernig sem hugir manna kunna þá að verða í trúarefnum, veit jeg, að þeirra verður minst, sem þannig ljeku hinn fornhelga stað. Og ekki verða þeir öfundsverðir af þeirri minningu.

Það er áreiðanlegt, að menn vilja ekki einasta geta sjer góðan orðstír, heldur er blátt áfram skylda hvers manns að gera það. Jeg hygg, að þjóðin geri aldrei svo lágar kröfur til þeirra, sem eiga að starfrækja umboð hennar, að þessi ráðstöfun þyki góð. Hjer er ekki einungis um einstakt kirkjumál að ræða, heldur alment menningarmál. Í öðrum löndum væri það þjóðarmetnaður, að slíkri kirkju, sem hjer er um að ræða, væri sómi sýndur. En hvað gerum við? Við ætlum að sljetta yfir síðustu leifarnar af okkar fyrstu kirkju. Við skulum í þessu sambandi líta til nágrannaþjóðanna. Hvað hafa Danir gert fyrir sínar fornu kirkjur, í Ribe, Roskilde og víðar? Hvað mundu Norðmenn segja, ef einhver vildi afmá kirkjuna í Þrándheimi? Hvað mundu Svíar segja, ef einhver vildi afmá kirkjuna í Lundi? Svona mætti lengi telja. Hvað mundu Englendingar gera, eða aðrar menningarþjóðir álfunnar? Þeir mundu áreiðanlega hugsa sjer önnur hátíðabrigði en þau, sem hjer eiga að fara fram. Hjer er verið að fremja óhæfu.

Hvað verður útlendingunum að orði, sem koma hingað 1930? Það er þó ætlun okkar, að „taka okkur út“ í augum þeirra. Við viljum leitast við að sýna þeim, að við sjeum menningarþjóð. Hv. þdm. geta verið vissir um, að þeir hafa lesið sögu okkar. Þeir hafa lesið um okkar ræktarsemi og fornu menningu. Jeg er hrædd um, að þeim finnist skjóta skökku við og gerðir okkar ekki samrýmast vel hinni íslensku ættartrygð og trygðinni við fornar sögur og fornar menjar. Þegar Íslendingar fara svona með sín helgustu mál, hvernig fara þeir þá með önnur mál? Þetta á þó sannarlega að vera hafið yfir alt dægurstríð og flokkapólitík.

Friðun Þingvalla er auðvitað sjálfsögð, en hún á ekki að ná svona langt. Hv. þdm. skulu sanna, að þegar mesta hátíðavíman er runnin af mönnum, mun þess ekki langt að bíða, að þeir sakni kirkjunnar og prestsins. Jeg spái, en einhver skráir. (JBald: hlær.)

Hv. 5. landsk. hlær. En sá hlær best, sem síðast hlær.

Betri friðun fæst ekki með öðru en því, að sjá prestinum á Þingvöllum fyrir sæmilegum bústað og reisa nýja kirkju í fornum stíl. Þá fyrst er hægt að segja, að saman fari saga og menning.

Eins og hv. 3. landsk. hefir bent á, hefir engin róttækari friðun verið hafin á Þingvöllum en einmitt þegar núverandi prestur þar bannaði mönnum að rífa upp hríslur. Það var ekki vegna krónanna — þær urðu ekki svo margar — heldur vildi hann sýna, að friðun skógarins væri nauðsyleg og um leið, að hver hrísla væri krónu virði.

Það eykur aldrei á helgi Þingvalla, að prestinum verði bolað burtu. Menn minnast þess kanske, hver gaf viðinn í Þingvallakirkju. Það var Ólafur helgi, árið 1015. Þó að varla sjeu margar stoðir eftir af þeim viði, mættum við gjarnan renna augunum aftur í tímann. En 1930 þykir það sæmilegt, að bola prestinum burtu og jafna kirkjuna við jörð. Mjer finst þetta hreint ekki sæma hinu háa Alþingi, sem ætti að vera í hátíðaþönkum vegna alþingisafmælisins 1930. Jeg tel þetta meira að segja alveg ósæmilegt. Og jeg er viss um það, að í því á jeg marga skoðanabræður út um land, hvað sem því líður hjer í hv. Alþingi.