23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

130. mál, Þingvallaprestakall

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er ekki fegruð mynd af verði siðgæðis og kirkjumála, sem fram kemur í þessu máli. (Dómsmrh. JJ: Það má ekki hlífa þeim seku). Enda þótt hæstv. ráðh. vildi skella skuldinni af Íhaldsflokkinn, er ekki hægt að bera neinar sakir á þann flokk í þessu máli. Hæstv. dómsmrh. sagði, að jeg hefði líklega ekki verið við 2. umr. Það kemur ekki svartur blettur á tunguna, þótt sagt sje ósatt. Jeg var viðstödd og hugsaði fleira en jeg sagði, og jeg hefi kynt mjer þennan lappa, frumvarpið, út og inn, enda er það ekki vandaverk. Ef á það hefir verið minst við 2. umr., að byggja kirkjuna á Þingvöllum, þá hefir því ekki verið haldið svo skýrt fram af fylgjendum frv., að það hafi letrast fast í hugi manna.

Jeg tók það fram í svari mínu til hv. 5. landsk., að sjálfsagt væri og nauðsynlegt, að undirbúa 1000 ára hátíðina sem best og fegra og friða þennan fornhelga stað. En svo mjög sem hv. 5. landsk. og hæstv. dómsmrh. fara í öfgar í meðmælum sínum með frv., þá finst mjer þess lítt gæta, að tilgangur frv. sje að gerra þennan fornhelga stað helgari í hugum manna.

Má jeg leggja eina spurningu fyrir hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra: Hvað segir biskupinn yfir Íslandi um þessa ráðstöfun? Jeg minnist ekki að hafa sjeð álit hans; en jeg hefði kunnað betur við, að sjá álit biskupsins um mál þetta. Kirkjan hefir um aldaraðir staðið undir stjórn merkra manna og verið menningarfrömuður, en með þessu frv. virðist eins og hv. dómsmrh. sje að hlynna að þeirri menningu, sem hann sjálfur hefir gefið nafnið „Grimsby-menning“.

Jeg minnist þess ekki, að fyrv. stjórn hafi gert neitt til þess að rýra Þingvelli sem kirkju- og sögustað, en hæstv. stjórn, sem nú situr, virðist aftur á móti hafa tekið það upp á stefnuskrá sína.

Ummæli hæstv. dómsmrh. um þekkingarleysi mitt í máli þessu álít jeg ekki svara verð, en vísa þeim heim til föðurhúsanna.