23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (1949)

130. mál, Þingvallaprestakall

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla aðeins að minnast á tvent af því, sem hæstv. dómsmrh. telur til niðurníðslu á Þingvöllum.

Annað þessara dæma er vegurinn. Jeg hygg, að dómur flestra vegfarenda sje sá, að eitthvað það tilkomumesta, sem fyrir augun ber á Þingvöllum, sje það, þegar komið er niður í Almannagjá, sem er eins og inngönguhlið, sem enginn veit af, fyr en alt í einu. Hygg jeg að væri öllu tilkomuminni aðkoman á Þingvöllum, ef farið væri niður að árósum. (Dómsmrh. JJ: Þetta fóru hinir gömlu). Það sýnir aðeins, hvað misjafnir dómar manna eru um þetta efni.

Hitt dæmið, sem jeg vil taka, er Valhöll. Þegar vakið var máls á því, að hún yrði bygð, þá voru það allra þjóðræknustu mennirnir, er þá voru uppi, sem beittu sjer fyrir því og lögðu fje fram til þess. Læt jeg nægja að nefna nöfn þriggja stofnendanna: Benedikt Sveinsson, fyrv. alþingisforseti, Björn Jónsson ritstjóri og Hannes Þorsteinsson skjalavörður voru helstu forgöngumennirnir í þessu efni. Á þessu getur hæstv. dómsmrh. sjeð, að það eru ekki allir góðir Íslendingar honum sammála um það, að gistihúsið sje niðurníðsla á staðnum. Þeir eru margir, sem álíta, að það hafi ekki minst gildi, að íbúar landsins fái tækifæri til þess að sækja staðinn heim.

Það eru alls eigi eingöngu pólitískar minningar, sem við þennan stað eru lengdar. Næst á eftir stofnun Alþingis sjálfs mun kristnitökunnar verða minst, sem hins merkasta viðburðar, sem þar hefir orðið.

Mjer fanst koma fram nokkuð þröngur skilningur á hlutverki prestsins hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann hjelt því fram, að hlutverk hans væri eingöngu að fullnægja trúarlegri þörf safnaðarins. Má þá ætla, að sama sje álit hans um aðra presta, og komi þar fram svipuð víðsýni og í samsteypulögunum frá 1907. En í sveitum landsins hefir ávalt verið litið svo á, að miklu máli skifti að hafa mentaða menn í sæmilegum efnahagsástæðum innan vjebanda sinna. Þar sem þetta hefir farið saman, hafa prestarnir verið sannir menningarfrömuðir í sínu bygðarlagi á fleiri sviðum en trúmálasviðinu. Þetta er mönnum út um sveitir landsins sárt um að missa, eins og eðlilegt er. En að saka prestinn á Þingvöllum fyrir það, sem allir þjóðræknir menn á sínum tíma hafa gengist fyrir og talið nauðsynlegt, svo sem byggingu gistihússins, það er með öllu ómaklegt.