23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (1951)

130. mál, Þingvallaprestakall

Halldór Steinsson:

Það hefir verið margtekið fram og sannað með rökum, að engin knýjandi ástæða er til að samþ. frv. þetta. Aðalástæðan, sem fram hefir verið borin, er sú, að með þessu eigi að friða Þingvelli fyrir 1930. En það hefir einnig verið sannað, að til þess að ná þeim tilgangi, er engin nauðsyn á að leggja prestakallið niður.

Jeg vildi drepa hjer nokkuð á þá hlið málsins, sem veit að prestinum sjálfum, vegna þess að aðrir hafa gengið fram hjá þeirri hlið. Mjer virðist, að beita eigi þennan embættismann slíkri harðýðgi í þessu máli, að þess sjeu engin dæmi. Það má hart heita, að þótt þing og stjórn þykist sjá einhverja ástæðu til þess, að prestur eigi ekki að vera á Þingvöllum áfram, að reka núverandi prest, sem ekkert hefir til saka unnið, út á gaddinn. Því að jeg kalla, að hann sje rekinn út á gaddinn, þótt honum sjeu ætluð 2000 kr. biðlaun á ári í 15 ár. Enginn getur lifað af þeirri upphæð, og þótt segja megi, að presturinn geti leitað sjer atvinnu, er ranglætið alveg hið sama fyrir því. Og hvar er rjettur embættismanna landsins, ef þing og stjórn eiga að geta sparkað þeim út úr embættum þeirra, eftir eigin geðþótta, þótt þeir hafi ekkert til unnið?