23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg get ekki fallist á, að hjer sje hart að gengið. Þess má fyrst geta, að brauð þetta er illa fengið, enda þótt núverandi prestur verði eigi sakaður um það. Kirkjustjórn landsins veitti honum það, þvert ofan í yfirlýstan vilja þingsins. Þess ber líka að gæta, að hægt er að leggja niður hvert einasta prestsembætti á landinu, með því að greiða viðkomandi presti biðlaun. En af því að jeg var — kanske um of — smitaður af hinni sömu vorkunnsemi og hv. þm. Snæf., lagði jeg til, að hann fengi biðlaun sem konunglegur embættismaður, enda þótt hann ætti ekki rjett á öðru en 300 kr. lífeyri á ári. Þingið hefir leyfi til að leggja niður slík embætti með þeim skilyrðum, eins og hv. þdm. mun kunnugt vera.

Þessi maður, sem hjer um ræðir, er dugnaðarmaður á besta aldri, og ætti því að veitast auðvelt að fá atvinnu. Verður því eigi sagt, að það sjeu nein neyðarkjör, að hafa aukreitis 2000 kr. með dýrtíðaruppbót í 5 ár. Það verða samtals 15 þús. kr., og er það engin smáræðisupphæð. Svo langt hefir verið gengið, enda þótt kirkjustjórnin veitti þetta embætti í forboði og trássi við Alþingi.