30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

130. mál, Þingvallaprestakall

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er nú ekki nýtt hjer á Alþingi. En út af ræðu hv. þm. Vestm. þykir mjer rjett að minnast nokkuð á gang þess. Það er nú skemst frá því að segja, að Þingvellir hafa átt sína blómaöld, eigi aðeins hvað snertir sögu þjóðarinnar, heldur og líka hvað viðvíkur meðferð sjálfs landsins. Á hnignunaröld landsins voru þar aðeins kotungslegar búðir, og Þingvöllum hnignaði stöðugt. Meðal annars þvarr þar stöðugt skógurinn, og var það að nokkru leyti vegna kolabrenslu, og að nokkru vegna þess að sauðfje var beitt í hann. Í sjálfu sjer er ekki hægt að álasa forfeðrum vorum fyrir þetta, því að þeim var nauðugur einn kostur að gera þetta, til þess að halda lífinu. Og þegar Alþingi var lagt niður þar, þá var svo komið, að búðirnar voru orðnar svo ljelegar og húsakynni svo vond, að þingmenn gátu ekki haldist þar við. Var þá gefið leyfi til þess, að þingið skyldi flutt hingað til Reykjavíkur.

Með vaxandi sjálfstæðistilfinningu og sjálfsvirðingu hjá þjóðinni fer vegur Þingvalla aftur að vaxa, og er þá farið að hlúa að náttúrufegurð og betri umgengni þar. Það fyrsta, sem Alþingi sjálft mun hafa skift sjer af þessu, var það, að á þinginu 1919 var samþ. þál. frá hæstv. forseta þessarar deildar ásamt öðrum þm., þess efnis, að hafin skyldi verndar- og fegrunarstefna á Þingvöllum. Eitt af því, sem þar var tekið fram, var það, að jarðir nálægt Þingvöllum skyldu ekki bygðar til langframa og að prestakallið skyldi ekki veitt, nema með vissum skilyrðum. Upp af þessu risu svo ýfingar milli kirkjuvaldsins og stjórnarinnar. Og þegar þetta prestakall losnar litlu síðar, þá auglýsir biskup, sem ekki var samþykkur þál., það skilyrðislaust, og svo vill til, að stjórnin athugar þetta ekkert, fyr en búið er að kjósa prestinn og skipa hann, en þá var alt um seinan. Prestur þessi hefir svo reynst hinn mesti athafnamaður og bætt mjög hús á staðnum, svo þau líta miklu betur út nú en áður. En afleiðingarnar af þessari veitingu urðu nú samt þær, að bygðar voru 2 jarðir í sveitinni með lífstíðarábúð.

Síðan þetta var, hafa svo setið tvær Þingvallanefndir. Sú fyrri reyndi að komast að samkomulagi við prestinn og fá hann til að hætta búskap, svo að hægt væri að koma á friðun, eins og óskað hafði verið eftir. En það tókst ekki, og urðu nokkur átök milli þessara aðila. Báðir höfðu þarna lög að mæla. Presturinn fyrir kirkjuvaldið, en nefndin fyrir ríkið. Niðurstaðan af þessu varð svo sú, að alt sat fast.

Svo kom önnur nefnd, og hefir hún sýslað við það sama og reynt að fá prestinn til þess að gera tilboð um það, með hv aða skilmálum hann fengist til þess að hætta þar búskap, en það hefir ekki tekist. Svarið hjá honum hefir altaf verið þetta: Ef jeg geri tilboð, er hætt við, að það þyki alt of hátt, og svo fæ jeg ekkert annað fyrir en ávítur.

Þetta er nú gangur málsins, og má af því sjá, að hjer er ekki gott við að eiga. Enda sjest það af samningaumleitan fyrri Þingvallanefndar, að ekki er gott að komast að samkomulagi við prestinn. Hann er hjer vitanlega í sínum fulla rjetti, því þegar honum var veitt brauðið, þá fjekk hann líka rjett til þeirra hlunninda, er því fylgja. Hann getur haft þar um 300 fjár. Hann getur selt þar tjaldstæði, ef honum sýnist, og hann getur meira að segja virkjað Öxarárfoss, ef hann vill. Það mun meira að segja hafa komið til orða, að hann og annar maður til tækju sig saman og virkjuðu Öxará milli brúarinnar og fossins. Engin lagaheimild var til þess að hindra þetta. Ekki varð samt neitt úr þessu, því að hlutaðeigendum mun hafa verið bent á, að það mundi þykja ákaflega leiðinlegt og mælast illa fyrir, ef það væri gert.

Sem dæmi þess, hve ómögulegt er að ráða við neitt, eins og nú standa sakir, skal jeg nefna eitt.

Í tíð þess prests, er var á undan þeim núverandi, var leyft að byggja sumarhús á stað, sem heitir Fagrabrekka. Þegar gamli presturinn fjell frá, fjell þetta leyfi úr sögunni. En svo þegar nýi presturinn kemur, veitir hann leyfið áfram. Nú heimtar almenningsálitið, að skúr þessi fari í burtu. Og endirinn verður líklega sá, að stjórnin neyðist til þess að kaupa hann fyrir 5000 kr. — Af þessu sjest, að nauðsynlegt er, að gerðar sjeu einhverjar ráðstafanir til þess að ríkið fái meiri völd á Þingvöllum en það hefir nú. Takmarkið er að fá umráð yfir jörðinni og kippa því í lag, sem fer í bága við kröfur almennings.

Árið 1907 ljet stjórnin byggja þarna tvo skála. Annar þeirra var kallaður Mikliskáli, og er nú jafnaður við jörðu; hinn var kallaður Konungshús og stendur enn, til mikillar óprýði á þessum náttúrufagra stað. Jeg býst við, að presturinn sje í sínum fulla rjetti, þegar hann krefst 1200 kr. í ársleigu eftir skálann. Þetta hefir enn ekki verið greitt, en jeg hygg, að presturinn mundi vinna, ef hann færi í mál út af þessu.

Jeg vona, að hv. þm. Vestm. sjái, að það er ekkert spaug fyrir Þingvallanefndina að undirbúa hátíð, þegar ekkert er hægt að gera, nema með því að ganga á rjett ábúanda. Í fyrra var samþ., að nýtt prestakall skyldi stofnað að Mosfelli, og þá var það gert að skilyrði, að presturinn þar tæki að sjer hjásókn endurgjaldslaust, og var með því átt við Þingvallasókn, og sókninni er enginn vansi að nýja prestinum, því að hann er sonur sjálfs biskupsins, ungur og efnilegur maður, sem getur staðið í stöðu sinni, svo að það er engin ástæða til að óttast, að kristnihaldið minki.

Um mótmæli safnaðarins er það að segja, að eins og gengur, koma altaf mótmæli, þegar verið er að tala um samsteypu. En jeg skil ekki, hvaða ástæðu Úlfljótsvatnssókn hefir til að mótmæla, því að aðstaða hennar verður eins góð og hún hingað til hefir verið, og meira að segja er erfiðara fyrir núverandi prest að komast til kirkjunnar en prestinn að Arnarhæli. Jeg legg ekki mikið upp úr því, að þarfir safnaðarins verði ekki uppfyltar. Sóknin er lítil, og jeg býst við því, að ef til væru skýrslur um það, hve margir sækja kirkju, mundi hv. deild sjá, að trúarþörfin, sem fullnægja þarf, er ekki mikil, eins og gengur í litlum og strjálbygðum sóknum. Þó að presturinn komi til kirkju, kemur fólkið ekki.

Jeg vil taka það fram, að fyrir Þingvallanefnd vakir að hlúa að kirkjunni á Þingvöllum. Nefndin vildi láta byggja þar fallega steinkirkju, en þótti það of dýrt. Og jeg lít svo á, að það eigi að reisa litla og smekklega steinkirkju á Þingvöllum og að þar eigi að vera lítill sveitabær í gömlum stíl.

Það eru tvær aðal-röksemdir fyrir þessu frv. Sú fyrri er, að verið er að hugsa um að vernda Þingvöll sem sögustað, með sinni ógleymanlegu náttúrufegurð. Og sú síðari er, að búa svo í haginn, að hægt sje að halda Þingvallahátíðina óhindrað af rjetti ábúandans. En þeir, sem frv. flytja, vilja ekki vera ósanngjarnir við prestinn. Það á að fara vel með hann og veita honum 2000 kr. biðlaun, ef hann fær ekki embætti, sem jeg býst við. Kostnaðurinn við biðlaunin og núverandi sókn er sá sami, en þegar prestaskifti verða í Arnarbæli, verður það samsvarandi upphæð og þegar stofnað var til nýs brauðs að Mosfelli. Og er þetta ekki miklu betra en að hafa prest á Þingvöllum, sem sjaldan getur messað, en er neyddur til að hafa mikla kvikfjárrækt, staðnum til stórskemda? Skógurinn er að hverfa, og næsta skrefið verður að flá burtu grasrótina, svo að ekki stendur annað eftir en bert hraunið.

Jeg get vel skilið, að menn vilji hafa kirkju á Þingvöllum, en að prestur sje búsettur þar alt árið er minni háttar atriði. Jeg vil benda á aðalatriðið í átökum kirkju og Alþingis um Þingvelli. Það er enginn vafi á því, að þótt margar kirkjulegar minningar sjeu bundnar við Þingvelli, eru þeir ekki kirkjulegur helgistaður, heldur pólitískur helgistaður fyrst og fremst. Og jeg vil minna á það, að þeir, sem vilja hafa prest á Þingvöllum, ættu að vilja flytja Alþingi þangað. Jeg vil það. Og það getur engum blandast hugur um það, að sje deilt um rjett Alþingis til að hafa pólitískan minningarstað á Þingvöllum og rjett kirkjunnar til að hafa þar kirkjulegan minningarstað, er málstaður Alþingis betri. Þó er alls ekki meiningin að þröngva kosti kirkjunnar. Það vilja allir, að á Þingvöllum sje vönduð og falleg kirkja. Og prestsþjónusta yrði eins góð þar og í hverjum tveimur sóknum öðrum á landinu, sjerstaklega þegar kominn er bílvegur frá Mosfelli til Þingvalla, svo að hægt verður að komast þangað í bíl. Og á vetrum verður það líka auðvelt, eftir að nýi vegurinn er kominn. Og með tilliti til þess, að lítið er um messur yfir veturinn, ekki síst, þegar ekki er hægt að hita upp fyrir eldiviðarleysi, býst jeg við, að þetta verði ekki til að draga úr kristnihaldinu.

Frv. er borið fram af því, að ómögulegt er fyrir Alþingi og prestinn að komast fyrir á Þingvöllum í einu. Það er ekki hægt að hindra prestinn í að setja gaddavírsgirðingu meðfram veginum, til þess að hindra fólkið í að fara þar ferða sinna. Hann getur gert það, þótt hann hafi ekki gert það. Og þegar þess er gætt, að þúsundir manna koma til Þingvalla á sumri hverju, verður það skiljanlegt, að ekki er hægt að halda áfram búskap á Þingvöllum, án þess að það spilli fyrir friði staðarins og geri gestum erfiðara fyrir. Þessa vegna er ekki önnur leið fær en að höggva á þennan hnút og viðurkenna, að þarna getur ekki verið um neitt tvíbýli að ræða. En það á að fara vel og kurteislega að þessum duglega manni, enda eru honum ætlaðar ríflegar skaðabætur. Þótt þessar skaðabætur verði ríkinu ekki dýrari en að hafa prest á Þingvöllum, eru það samt peningar, og sýna, að Alþingi vill ekki fara illa með núverandi prest, þótt hann hafi komist að Þingvöllum í forboði þess.