17.02.1928
Neðri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2014)

90. mál, endurskoðun siglingalöggjafar

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Á þessu stigi málsins vil jeg alls ekki hefja deilur um þetta atriði. Jeg vil ekki leggjast á móti því, að stjórnin athugi þetta, en hinsvegar vil jeg benda henni á, að þetta ákvæði er mjög mikilsvert atriði, því að það er eina tryggingin, sem sjómenn hafa fyrir greiðslu á kaupi sínu á skipunum, og er því um stórvægilega rjettarskerðing að ræða, ef það væri felt niður.

Sem sagt læt jeg það óátalið, þó athugað sje, hvort finna megi aðra tryggingu jafngóða, en jeg er hræddur um, að það reynist lítt mögulegt, svo nokkur trygging sje í. Ef tryggingunni, sem fólgin er í sjóveðum, væri kipt burtu, án þess að nokkuð kæmi í staðinn, er sje jafngóð trygging, áliti jeg, að um svo mikla afturför væri að ræða, að slíkt geti ekki komið til mála. Það myndi verða mjög hættulegt fyrir sjómannastjettina yfirleitt.