27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2019)

119. mál, landsspítali

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) og jeg höfum borið fram till. þá til þál.; sem hjer liggur fyrir. Í henni er farið fram á, að þingið skori á stjórnina að ljúka byggingu landsspítalans fyrir 1930.

Landsspítalamálið hefir ekki verið og er vonandi ekki enn neitt flokksmál. Að minsta kosti hafa fleiri flokkar en Alþýðuflokkurinn ljeð því fylgi hjer á þingi, og jeg vænti því þess, að þeir muni verða margir og af öllum flokkum, sem ljá því enn fylgi sitt við væntanlega atkvgr. nú.

Jeg veit, að hæstv. stjórn er hlynt því, að þessari byggingu verði sem fyrst lokið, en það er þó ljóst, að verði ekki meira unnið en sem svarar þeirri upphæð, sem til þess er veitt í fjárlögum fyrir 1929, þá fer því mjög fjarri, að byggingunni verði lokið fyrir 1930.

Upphaflega var allur kostnaður við bygginguna, auk innanhússmuna, áætlaður um 1300 þús. kr., en hann hefir orðið töluvert minni í reyndinni. Til þessa hefir verið lagt til byggingarinnar 275 þús. kr. úr landsspítalasjóði og 230 þús. kr. úr ríkissjóði. En á þessu ári er búist við, að landsspítalasjóður leggi fram 25 þús. kr., en ríkissjóður 120 þús. kr. Það eru því alls 145 þús. kr., sem eru til umráða á þessu ári, en samkvæmt umsögn húsameistara ríkisins þyrfti 240 þús. kr. Með öðrum orðum, það þyrfti nokkurt lán þegar á þessu ári. En ef byggingunni á að verða lokið fyrir 1930, þá þarf meira lán, því að ef ekki verður lagt fram meira en 100 þús. kr. á ári, þá mun byggingunni ekki verða lokið fyr en 1934. Hjer er því að ræða um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka 400–500 þús. kr. lán til þess að ljúka verkinu, þar með talið til kaupa á innanstokksmunum, sem munu kosta á annað hundrað þús. Það er ef til vill mögulegt, að eitthvað mætti spara með því að byggja ekki í bili nema neðri hæð starfsmannabústaðarins, en þó er mjög vafasamt, hvort nokkur sparnaður mundi af því hljótast.

Við flutningsmenn þessarar till. bjuggumst við því, að ef ljúka ætti byggingunni fyrir 1930, þá þyrfti nýja þál. um lánsheimild, því að þótt stj. hefði þessa heimild frá 1919, þá er ekki að búast við, að hún leggi út í lántökur, nema hún hafi nýjan og skýlausan þingvilja að baki sjer.

Það eru margar ástæður til þess, að ljúka þarf byggingunni sem fyrst. Það eru þá fyrst fjárhagsástæður. Það liggur í augum uppi, að það er mjög óhagkvæmt að hafa lengi mörg hundruð þús. kr. bundnar í ónothæfum steinveggjum hjer uppi í holtum. Önnur ástæðan er hin brýna þörf á sjúkrahúsi vegna þess ástands, sem fjöldi sjúklinga, bæði í spítölum og utan þeirra, á nú við að búa. Þau sjúkrahús, sem nú eru til, eru yfirfull, svo að menn jafnvel neyðast til að setja fárveika sjúklinga á ganga og í baðherbergi. Menn eru fluttir af sjúkrahúsum, þótt þeir sjeu jafnvel nýkomnir af skurðarborðinu, og aðrir, þótt þeir hafi engan veginn náð fullum bata og hefðu brýna þörf fyrir að vera þar lengur, vegna þess að knýjandi þörf er til að rýma fyrir öðrum enn þá veikari. Bygging landsspítalans ætti að minsta kosti að bæta mjög mikið úr þessu.

Þá snertir þetta mál mjög kenslumál, þótt mönnum kunni ef til vill að koma það undarlega fyrir sjónir. Prófessorar háskólans kvarta yfir því, að það sje orðið næstum ógerningur að kenna læknaefnum, vegna þess að spítalarnir sjeu svo þröngir og illa útbúnir. Sama er að segja um ljósmæðrakensluna. Hún verður ekki í góðu lagi, nema kostur sje á fyrir ljósmæðranema að ganga í fæðingadeild. En slík fæðingadeild mun verða sett á fót við landsspítalann. Svipuðu máli er að gegna um hjúkrunarkenslu. Vel lærðar og æfðar hjúkrunarkonur er erfitt að fá, vegna þess hve örðugt er fyrir hjúkrunarnema að fá stöður á spítölum til að læra hjúkrun. Landsspítalinn mundi bæta töluvert úr þessu.

Það eru því mjög mikilvægar ástæður til að flýta sem mest byggingu landsspítalans. Jeg vænti, að flestir hv. þm. sjeu okkur flm. sammála um það, að það sje mjög æskilegt, að fyrir 1930 komist upp þessi merkilegi 1000 ára minnisvarði um menningu Íslendinga, sem mun sýna það, hver munur er á henni nú og til forna, þegar börn voru borin út, gamalt fólk og sjúkt ráðið af dögum og annað svipað athæfi látið viðgangast.