27.03.1928
Sameinað þing: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2024)

119. mál, landsspítali

Halldór Steinsson:

Eins og kunnugt er, hafa mörg undanfarin þing verið fluttar till. þess efnis að flýta byggingu landsspítalans. Að vísu verður ekki annað sagt en að þessar till. hafi borið nokkurn árangur, enda þótt málið sje ekki komið svo langt sem vænta mætti, eftir margítrekuð tilmæli Alþingis. Fyrri ræðumenn hafa skýrt frá því, hve mikið fje er komið í bygginguna, og er það um 500 þús. kr., og hve mikið áætlað er að þurfi til að ljúka henni, samtals 870 þús. kr., og eru þá með taldir innanstokksmunir. Einnig hefir verið bent á, að samkv. samningi milli ríkisstjórnarinnar og landsspítalanefndar eigi spítalinn að vera kominn upp árið 1930. Þessi samningur hefir stundum verið vjefengdur, en jeg hygg, að það sje ekki hægt með rjettum rökum, og því verði hæstv. stjórn og Alþingi að hegða sjer eftir honum.

Landsspítalasjóður hefir nú þegar lagt fram alt það fje, er hann hefir, og verður ríkissjóður því að taka við og ljúka byggingunni. Eftir áætlun húsameistara ríkisins þarf hvert næstu þriggja ára að leggja fram sem hjer segir, til þess að byggingin geti haldið áfram með fullum hraða: 1928 344 þús. kr., 1929 234 þús. kr., 1930 292 þús. kr., og eru þar með taldir innanstokksmunir. Nú er útlit fyrir, að í ár verði ekki handbært úr ríkissjóði nema um 150 þús. kr., og kemur þá til með að vanta hátt á annað hundrað þúsund. Sje jeg ekki, að reynt sje til að bæta úr þessu í fjárlögum eða fjáraukalögum. Að vísu liggja fyrir Alþingi allmörg tekjuaukafrv., sem telja má víst að nái fram að ganga, og munu auka tekjur ríkissjóðs allmikið. Samt sem áður tel jeg víst, að taka þurfi lán til þess, að hægt sje að standa við samninginn. Jeg lít svo á, að í till. felist það, að þessi bygging eigi að sitja fyrir um fje úr ríkissjóði, ef það er fyrir hendi, og verði a. m. k. tekið fram yfir aðrar ónauðsynlegri framkvæmdir utan fjárlaga. Treysti jeg hæstv. stjórn til að hegða sjer eftir því.

Hæstv. fjmrh. bjóst við, að kostnaðurinn við að koma upp þessari byggingu mundi fara allverulega fram úr áætlun, og dæmdi þar eftir reynslunni um opinberar byggingar alment. Jeg vil í því sambandi minna á, að enn sem komið er hafa öll útboð um þessa byggingu orðið undir áætlun. Það sýnir, að áætlanirnar hafa verið mjög varlega gerðar. Má því vænta, að þær standist einnig framvegis.

Hæstv. ráðh. sagði, að það mundi ekkert bæta fyrir málinu, þótt þessi tillaga væri samþykt. Jeg er satt að segja hissa að heyra þetta sagt úr ráðherrastóli. Jeg hefi álitið þingsályktanir bindandi fyrir stjórnina, en eftir þessum orðum hæstv. fjmrh. álítur hann sjer heimilt að skella skolleyrum við fyrirskipunum Alþingis. Jeg vil, að hæstv. ráðh. lýsi enn þá einu sinn: skýrt yfir, að hann ætli ekki að framfylgja vilja Alþingis, þótt þessi till. verði samþykt; annars get jeg ekki trúað því. Á þessu hefir nú verið hamrað þing eftir þing, og nú er þessi till. borin fram, ekki til þess að fá málið svæft, heldur til þess að fá auknar framkvæmdir.

Hæstv. ráðh. sagði, að lögð mundi aðaláhersla á, að aðalbyggingunni yrði lokið 1930. En það er ekki nóg, ef starfsmannahúsið vantar, því að í því húsi verður nokkur hluti spítalans, sem nauðsynlegur er til þess að hann geti tekið til starfa. Samningnum er því ekki fullnægt fyr en starfsmannahúsið er komið upp.

Vegna sóma þings og stjórnar verður ekki hjá því komist að ljúka þessum tveim byggingum eigi síðar en 1930.