29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2035)

94. mál, frystihús og bygging nýs kæliskips

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Það er tilgangur okkar flm. með þessari tillögu að fara fram á það við hæstv. stjórn, að hún veiti á yfirstandandi ári, með þeim skilmálum, sem ti1 eru teknir í gildandi fjárlögum, 200000 kr. að láni til frystihúsa, svo framarlega sem fram á það verður farið úr hjeruðum landsins.

Eins og kunnugt er, fengu bændur á síðastliðnu hausti miklu meira fyrir þann hluta kjöts síns, sem sendur var út frystur, heldur en þann, sem saltaður var, og því hefir vaknað töluverður áhugi í landinu fyrir því að reisa slík frystihús, og eftir því, sem jeg hefi frjett, hefir komið svo mikið af lánbeiðnum til stjórnarinnar, að hún hefir ekki nægilegt fje til að fullnægja því eftir gildandi fjárlögum. En nú er það tilgangur okkar með þessari tillögu að láta hæstv. stjórn vita það, að það verður óátalið af mjer og þeim, sem þessari tillögu fylgja, þótt meira verði notað en heimilt er eftir gildandi fjárlögum.

Jeg hefi talað við hæstv. fjmrh. (MK) um þetta., og hefir mjer skilist á honum, að hann muni geta útvegað fje, ef fjárveitingin verði hækkuð fyrir næsta ár, og í hv. Ed. er komin fram till. um að hækka þetta fjárframlag að talsverðum mun.

Jeg býst ekki við, að eyða þurfi löngum umræðum um þessa nauðsyn bænda til að koma kjöti sínu kældu eða frystu á erlendan markað, því að það er orðið svo, að ekki er lengur hægt að búast við að fá jafnhátt verð fyrir kjötið saltað eins og kælt eða fryst. Þess vegna verð jeg að telja það mesta framfaraspor að hjálpa bændum landsins til að koma þessari vöru sinni á þann markað, sem líklegastur er til að gefa hæst verð.

Síðari hluti tillögunnar er um það, að skora á ríkisstjórnina að leita samninga við Eimskipafjelag Íslands um að byggja nýtt kæliskip á borð við Brúarfoss, á svipuðum grundvelli og þegar samið var um það skip, og leggja svo fyrir Alþingi niðurstöðu þeirra samningaumleitana í frumvarpsformi, ef samningar nást. Það virðist nefnilega svo sem það verði of mikið fyrir eitt skip að anna þessum flutningum á haustin, en annars ætla jeg að fara mjög skamt út í þann lið, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. meðflm. minn (ÓTh) taki til máls um hann, en vil aðeins taka það fram, að það væri mjög æskilegt að fá annað skip eins og Brúarfoss og með svipuðum kjörum, því að jeg hygg, að það sje hin allra ákjósanlegustu kjör, sem hægt er að fá, að leggja Eimskipafjelagi Íslands nokkra fjárfúlgu til í þessu skyni, gegn því að það svo reki skipið á sinn kostnað. Jeg skal náttúrlega ekkert um það segja, hvernig Eimskipafjelagið, snýst við slíkum samningi. Jeg hefi ekkert um það talað við stjórn fjelagsins, en mjer þykir ekki ólíklegt, þar sem kunnugt er, að fjelagið vill gjarnan færa út kvíarnar, að það álíti tímabært að faxa að undirbúa málið; vænti jeg því, að hæstv. stjórn bregðist vel við þeim málaleitunum, sem í þessari till. felast. Mun jeg svo ekki mæla fleira að sinni.